Bílar

Útivallarsigur í Þýskalandi

Finnur Orri Thorlacius skrifar
Gripurinn grandskoðaður áður en lagt var í reynsluaksturinn.
Gripurinn grandskoðaður áður en lagt var í reynsluaksturinn.
Einn af mörgum rafmagnsbílum sem kominn er myndarlegur biðlisti eftir hér á landi er Jaguar I-Pace. Skyldi engan undra því þótt bíllinn sé nýkominn á markað er hann margverðlaunaður og var nú síðast að fá vegtylluna Bíll ársins í Þýskalandi og það á heimavelli margra af frægustu bílaframleiðendum heims. Í vikunni var hann líka valinn besti rafmagnsbíll heims af Top Gear mönnum. Þarna fer því enginn venjulegur bíll frá þessum margrómaða breska sportbílaframleiðanda.

Jaguar I-Pace er eiginlega í stærð og lögun á milli þess að teljast jeppi eða jepplingur. Hann er með afturhallandi coupé-laga formi og því sportlegur. Þessi bíll er einstaklega fallega hannaður og mun örugglega vekja mikla athygli þegar eintökum fjölgar á íslenskum götum. Um daginn gafst bílablaðamönnum hérlendis tækifæri til að reyna þennan fyrsta hreinræktaða rafmagnsbíl Jaguar, en með í för voru sérfræðingar frá Jaguar.

Gæsahúðarskemmtun

Það er í raun merkilegt að þessi ekki svo stóri framleiðandi, Jaguar, skuli vera á undan öllum þýsku lúxusbílaframleiðendunum að tefla fram hreinræktuðum rafmagnsjeppa, en ennþá er bið eftir Audi E-Tron jeppanum og samskonar jeppum frá BMW, Benz og Porsche. Það mun væntanlega gefa Jaguar mikið söluforskot á þá þýsku, sérstaklega í ljósi þess hve frábærar viðtökur bíllinn hefur fengið. Jaguar I-Pace er gríðaröflugur bíll með 400 hestafla drifrás sem sendir aflið til allra hjólanna og togið er „litlir“ 700 Nm, sem er tala sem á frekar heima í flokki vörubíla.

Fyrir vikið er bíllinn ekki nema 4,8 sekúndur í hundraðið og það er sko aldeilis gaman að keyra þennan fola sporum. Fyrir það fyrsta tekur hann á öllum sínum hestöflum frá fyrstu nanósekúndu en svo er millihröðunin líka svo skemmtileg. Það er hreinlega alveg sama á hvaða hraða bílnum er gefið í botn, viðbragðið er alltaf frábært og umfram allt gæsahúðarskemmtilegt.

Ódýrari en margur jeppinn

Það sem flestir spyrja um þegar minnst er á rafmagnsbíla er hvert drægi hans er. Þar er I-Pace kominn í fullorðinsflokk með sitt 470 km drægi og sver sig í ætt við langdrægustu rafmagnsbíla eins og Tesla. En talandi um Tesla bíla þá er forvitnilegt að bera þennan I-Pace bíl saman við Tesla Model X jeppann. Fyrir það fyrsta er Model X sprækari og langdrægari en I-Pace, en hann er líka um helmingi dýrari. Þeir sem hafa efni á að borga hátt í 20 milljónir fyrir bíl ættu að hafa Tesla-bíla í huga, en það er bara svo miklu stærri hópur fólks sem getur hugsað sér að eyða rúmum 9 milljónum í lúxusjeppa, hvað þá svona vel heppnaða og verðlaunaða.

Í raun er I-Pace hreinlega kominn undir verð flestra lúxusjeppa með hefðbundnum brunavélum sem í boði eru hérlendis, en hann er minni en þeir flestir og líklega ekki mikill torfærubíll. Þó er hann með verulega gott farangursrými, eða 577 lítra, en allt að 1.453 lítrum með aftursætin niðri. Svo er líka 27 lítra geymslurými í húddinu, en slíkt er aðeins gerlegt í rafmagnsbílum.

Kæmist til Akureyrar

Í reynsluakstrinum sem lá um Suðurlandið reyndist þessi bíll hrikalega vel og og skemmtanagildið á pari við það allra besta. Aksturseiginleikar bílsins eru algerlega frábærir og fyrir 2,1 tonna vigtinni finnst varla, nema þá í formi lágs þyngdarpunktsins sem þungar rafhlöðurnar í gólfinu skapa.

Þyngdarpunktur I-Pace er 13 cm lægri en í F-Pace bróður hans og þar sem ­I-Pace er stífasti bíll sem Jaguar hefur smíðað, verður aksturinn frábær. Hljóðleysið í bílnum skapar honum bæði sérstöðu og virðingu og er hreint mögnuð tilfinning. Hann virðist að auki vel einangraður, en þó bar meira á vindgnauði en dekkjahljóði, en ekki er vélarhljóðinu fyrir að fara.

Virkilega falleg innrétting er í I-Pace og brúar bilið milli framúrstefnu og klassíkur. Mjög gott flutningsrými er í bílnum og að auki lítið sætt 27 lítra rými að framanverðu.
Farin var um 200 km leið og bíllinn átti annað eins eftir á rafhlöðunum við endastöð og það þrátt fyrir að hægri fóturinn hafi oft reynst afar þungur. Því má alveg búast við því að I-Pace nái hátt í uppgefið 470 km drægi, sem nota bene er samkvæmt nýrri WLTP mælingu Evrópusambandsins. Að minnsta kosti ætti hann að ná 400 km í okkar kalda landi og næði því frá Reykjavík til Akureyrar.

Margir tugir Íslendinga hafa skrifað sig fyrir eintaki af I-Pace og verður hluti þeirra afhentur í mars en BL fær fleiri bíla í apríl og líklega er enn möguleiki að krækja sér í eintak sem afgreitt yrði þá. Greinarritari skilur þá sem pantað hafa sér eintak af þessum bíl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×