Erlent

Segja bilaðan skynjara hafa valdið misheppnuðu geimskoti

Samúel Karl Ólason skrifar
Geimflaugin bilaði þegar verið var að reyna að skjóta þeim Alexey Ovchinin og Nick Hague til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar.
Geimflaugin bilaði þegar verið var að reyna að skjóta þeim Alexey Ovchinin og Nick Hague til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar. AP/Dmitri Lovetsky
Geimvísindastofnun Rússlands, Roscosmos, segir að bilaður skynjari Soyuz-eldflaugarinnar hafi valdið misheppnuðu geimskoti þann 11. október. Mistök eru sögð hafa verið gerð við uppsetningu skynjarans og mögulegt er að tvær aðrar eldflaugar séu einnig bilaðar.

Geimflaugin bilaði þegar verið var að reyna að skjóta þeim Alexey Ovchinin og Nick Hague til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Þeir þurftu að framkvæma neyðarlendingu úr um 35 kílómetra hæð. Þetta var í fyrsta sinn sem bilun kom upp í mönnuðu geimskoti með Soyuz-eldflauginni frá árinu 1983, samkvæmt BBC.



Roscosmos hefur birt myndband af atvikinu sem tekið var upp á myndavél sem hékk utan á eldflauginni. Þar má sjá hvernig eldflaugin og geimfarið fóru að snúast eftir að bilunin kom upp.

Samkvæmt umfjöllun Ars Technica settu Rússar mikinn hraða í rannsóknina vegna þess að eins og staðan er í dag eru Soyuz-eldflaugarnar einu eldflaugarnar sem hægt er að nota til að senda menn út í geim. Til stendur að skjóta þremur geimförum til geimstöðvarinnar þann þriðja desember.



Sjá einnig: Ný eldflaug NASA langt á eftir áætlun og peningar fuðra upp



Sergei Krikalev, einn af yfirmönnum Roscosmos, segir að bilaði skynjarinn hafi ekki skynjað aðskilnað fyrsta stigs eldflaugarinnar né annarsstigsins. Því hafi einn hliðarhreyfill eldflaugarinnar ekki slitið sig frá henni með réttum hætti og slóst utan í aðalhluta flaugarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×