Viðskipti innlent

Aldrei fleiri hlynntir sölu bjórs í búðum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Jólabjór fer fljótlega í sölu, bæði í ÁTVR og á börum landsins.
Jólabjór fer fljótlega í sölu, bæði í ÁTVR og á börum landsins. Fréttablaðið/anton brink
Fleiri Íslendingar eru hlynntir sölu bjórs og léttvíns í matvöruverslunum nú en í fyrra, en hlutfallið hefur hækkað um 5-6 prósentustig á milli ára. Hlutfall hinna hlynntu er nú um 37 til 38 prósent.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri könnun sem framkvæmd var af Maskínu um afstöðu Íslendinga til sölu mismunandi áfengis í verslunum.

Þetta er í fjórða sinn sem Maskína framkvæmir slíka könnun og hefur andstaða við sölu bjórs og léttvíns í matvöruverslunum ekki verið minni síðan hún var fyrst framkvæmd árið 2014.

Sem fyrr eru fleiri Íslendingar andvígir slíkum áformum. Til að mynda voru 46 prósent aðspurðra á móti sölu bjórs og léttvíns í verslunum. Þetta hlutfall hefur þó lækkað um 12 prósent á milli ára. Fram kemur í umfjöllun Maskínu að lækkunin skýrist bæði af hækkun hlutfalls þeirra sem eru hlynntir og fjölgun í hópi þeirra sem eru á báðum áttum. Síðarnefndi hópurinn telur nú um 17 prósent aðspurðra, en var 10 prósent í fyrra.

Þó er yfirgnæfandi meirihluti almennings andvígur sölu sterks áfengis í matvöruverslunum eða um 71 prósent svarenda.

Nánar má fræðast um niðurstöður og rannsóknaraðferðina á vef Maskínu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×