Erlent

Játar að hafa banað óléttri eiginkonu og tveimur dætrum

Atli Ísleifsson skrifar
Chris Watts gæti átt yfir höfði sér þrjá lífstíðardóma.
Chris Watts gæti átt yfir höfði sér þrjá lífstíðardóma. Getty/pool
Bandarískur karlmaður frá Colorado hefur játað að hafa banað óléttri eiginkonu sinni og tveimur dætrum þeirra. 

Saksóknari samþykkti að hverfa frá kröfu um að Chris Watts yrði dæmdur til dauða í skiptum fyrir að Watts játaði það sem útlistað væri í öllum níu ákæruliðum.

Lýst var eftir hinni 34 ára Shanann Watts, sem var gengin fimmtán vikur, og dætrum þeirra Chris – þeim Celeste, þriggja ára, og Bellu, fjögurra ára – í ágúst síðastliðinn.

Fundust í olíutanki

Lík stúlknanna fundust í olíutanki, skammt frá líki móður sinnar, sem hafði verið komið fyrir í grunnri gröf.

Chris Watts var meðal annars ákærður fyrir morð og misnotkun á líkum.

Hann lýsti því fyrst yfir að hann hafi greint eiginkonu sinni frá því að hann hafi verið að halda framhjá og í kjölfarið hafi hún drepið aðra dótturina og reynt að drepa hina þegar hann réðst á hana.

Kom fram í viðtölum

Watts gæti átt yfir höfði sér þrjá lífstíðardóma en dómari mun ákvarða um refsingu þann 19. nóvember næstkomandi.

Eftir að tilkynnt var um hvarf Shanann og dætranna ræddi Chris Watts við fjölmiðla og sagðist þá vona að þau væru einhvers staðar óhult. Innan við sólarhring eftir að hann kom fram í viðtölum var hann handtekinn af lögreglu. Sjá má viðtalið að neðan.




Tengdar fréttir

Líkin fundust í olíutanki

Lík móður og tveggja dætra hennar fundust í olíutanki í Colorado. Faðirinn hefur verið handtekinn vegna málsins.

Játar morð en segir eiginkonuna hafa drepið dæturnar

Faðir tveggja ungra stúlkna sem fundust látnar í olíutönkum í Denver í Bandaríkjunum eftir að hafa verið saknað dögum saman segir ólétta eiginkonu sína hafa myrt dætur þeirra eftir að hafa komist að því að faðirinn vildi skilnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×