Viðskipti erlent

Google lofar bót og betrun eftir að starfsmenn gengu út

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Einhverjir hafa þó bent á að með þessu komi Google ekki nægilega vel til móts við mótmælendur.
Einhverjir hafa þó bent á að með þessu komi Google ekki nægilega vel til móts við mótmælendur. Vísir/Getty
Tæknirisinn Google hefur heitið því að gera úrbætur á stefnu sinni gagnvart ásökunum um kynferðislega áreitni á vinnustaðnum. Þetta kemur fram í tölvupósti sem forstjóri Google, Sundar Pichai, sendi starfsfólki í dag. Þúsundir starfsmanna Google yfirgáfu vinnustaði sína í byrjun mánaðar til að mótmæla „forkastanlegri framkomu fyrirtækisins við konur.“

Í tölvupósti Pichai segir að Google muni ekki lengur leiða ásakanir um kynferðislega áreitni til lykta með samningaviðræðunum. Þá heitir hann því einnig að rannsóknarferli í slíkum málum innan fyrirtækisins verði endurskoðað og að komið verði á stuðningsneti fyrir þolendur.

Einhverjir hafa þó bent á að með þessu komi Google ekki nægilega vel til móts við kröfur mótmælenda. Til að mynda hafi ekki verið tekið á kynbundnum launamuni innan fyrirtækisins.

Mótmælaaðgerðirnar í byrjun nóvember eru einna helst raktar til nýlegra vendinga í umræðu um bága stöðu kvenna í tæknigeiranum. Kornið sem fyllti mælinn var umfjöllun New York Times um Andy Rubin, sem bjó til Android-stýrikerfið, en hann fékk 90 milljónir dala þegar hann var rekinn frá Google árið 2014 vegna ásakana um kynferðisbrot.


Tengdar fréttir

Starfsmönnum Google var ofboðið

Efnt var til mótmæla á skrifstofum Google víða um heim í gær og gengu starfsmenn út af vinnustaðnum vegna kerfisbundinna kynþáttafordóma og kynbundins ofbeldis. Starfsfólk krefst umbóta.

Starfsmenn Google gengu út

Starfsmenn tæknirisans Google hafa yfirgefið vinnustaði sína í morgun í mótmælaskyni.

Google hefur rekið 48 á tveimur árum vegna áreitni

Þar á meðal voru þrettán háttsettir stjórnendur. Í bréfi til starfsmanna fyrirtækisins sem birt var í dag sagði Sundar Pichai, forstjóri Google, að fyrirtækið tæki hörðum tökum á áreitni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×