Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - Riko Ribnica 32-26 | Selfoss komið áfram í EHF-bikarnum

Arnar Helgi Magnússon skrifar
Haukur Þrastarson er lykilmaður í liði Selfossi.
Haukur Þrastarson er lykilmaður í liði Selfossi. vísir/bára
Það var mikið undir þegar Selfyssingar tóku á móti Riko Ribnica frá Slóveníu í 2. umferð EHF-keppninnar. Leikið var í Hleðslu-höllinni á Selfossi fyrir framan troðfullt hús af stuðningsmönnum Selfoss. Selfyssingar töpuðu fyrri leikum í Slóveníu, 30-27 og þurftu því að vinna um þriggja marka mun. Fyrir sigurvegara viðureignarinnar var í boði sæti í 3. umferð keppninnar en dregið verður í næstu viku. 

Heimamenn voru betri frá fyrstu mínútu leiksíns og voru komnir í 4-1 eftir átta mínútur. Slóvenarnir mættu ógnarsterkri vörn Selfyssinga og áttu oft á tíðum engin svör. Pawel var flottur í markinu í fyrri hálfleik og varði á mikilvægum tímapunktum.

Gestirnir reyndu hvað þeir gátu en náðu lítið að saxa á forskot Selfyssinga. Mest náðu heimamenn sjö marka forystu í fyrri hálfleik en eins og fyrr segir var varnarleikur Selfyssinga í fyrri hálfleik algjörlega magnaður. Liðsmenn Ribnica skoruðu tvö síðustu mörk fyrri hálfleiksins og staðan 15-10 þegar 30 mínútur voru liðnar. 

Selfyssingar héldu uppteknum hætti í fyrri hálfleik og héldu svipaðri forystu út leikinn. Sölvi Ólafsson kom inn fyrir Pawel í síðari hálfleik eftir að Pawel hafði ekki varið skot í einhvern tíma. Sölvi var frábær þær mínútur sem hann spilaði, varði sjö skot og var með 41% markvörslu.

Það sem gerði frammistöðu hans en magnaðri að flest þessi skot sem hann varði komu úr algjörum dauðafæri. Stuðningsmenn Selfoss heldur betur ánægðir með frammistöðu Sölva í kvöld.

32-26 lokatölur og Selfyssingar vinna einvígið þrátt fyrir að hafa þurft að vinna upp þriggja marka forskot.  Alexander Egan var markahæstur Selfyssinga með átta mörk úr níu skotum

Afhverju vann Selfoss?

Ætla má að Patrekur Jóhannesson þjálfari Selfyssinga hafi legið yfir fyrri leik liðanna og skoðað það sem þurfti að laga. Selfyssingar virtust koma mun undirbúnari en Slóvenarnir og drógu allskonar hluti uppúr hattinum sem að gestirnir áttu ekki von á.

Vörnin í fyrri hálfleik var frábær og er hún stór hluti af þessum sigri í kvöld. Selfyssingar voru að opna hornin frábærlega fyrir Alexander og Hergeir og oft á tíðum snérust varnarmenn Ribnica í hringi.

Þó að vörnin hafi verið frábær var sóknarleikurinn ekkert síðri enda skoraði liðið 32 mörk. 

Hverjir stóðu uppúr?

Alexander Már er nafn sem einhverjir áhugamenn um handbolta vissu ekki af áður en tímabilið hófst í haust. Alexander lék með Þrótti í Grill66 deildinni á síðustu leiktíð en er þrátt fyrir það Selfyssingur. Alexander hefur byrjað tímabilið frábærlega og það var engin breyting á því í kvöld. Skoraði átta mörk úr horninu í einungis níu tilraunum.

Sölvi Ólafsson nýtti heldur betur tækifærið þegar hann kom inn fyrir Pawel. Frábær liðsframmistaða hjá Selfyssingum í kvöld og það væri nánást hægt að velja hvern sem er úr frábæru liði heimamanna.

Hvað gekk illa?

Það gekk mjög illa fyrir liðsmenn Ribnica að sækja á vörn Selfyssinga. Þeir voru orðnir pirraðir í restina enda var fátt sem gekk upp hjá þeim. Markvarslan hjá gestunum var ansi döpur í kvöld en markverðirnir þeirra voru samanlagt með sjö skot varin. 

Hvað gerist næst.

Selfyssingar verða í pottinum þegar dregið verður í 3.umferð EHF-keppninnar í næstu viku. Takist liðinu að slá næsta andstæðing sinn út er liðið komið í riðlakeppni EHF-bikarsins. Liðið leikur gegn Val í Olísdeildinni á miðvikudagskvöldið en bæði þessi lið taplaus.  Slóvenarnir fljúga heim í nótt og halda áfram sinni deildarkeppni í Slóveníu.

Patrekur: Frábær auglýsing fyrir Selfoss
Patrekur var ánægður eftir leikinn í kvöld.vísir/ernir
„Þetta var frábært. Hvernig við komum inn í leikinn var flott hjá strákunum. Að fá á sig tíu mörk í einum hálfleik og þar af 4-5 hraðaupphlaup, frábær vörn. Þetta var frábær auglýsing fyrir Selfoss.”

Patrekur segir að liðið hafi alltaf haft trú á því að þeir gætu snúið einvíginu sér í hag. 

„Eftir að hafa greint fyrri leikinn útí Slóveníu þá var ég alveg viss um það að við gætum komið til baka. Við spiluðum leikinn ekki vel þar en töpum samt bara með þremur. Við byrjuðum leikinn þar vel í 10 mínútur og síðan kemur kafli sem að við erum alveg skelfilegir. Ég vissi alveg að það væri möguleiki að koma til baka en í þessari keppni er það krefjandi, við gerðum vel og ég hrósa strákunum. Þeir voru frábærir í dag.”

Hleðslu-höllin var troðfull af stuðningsmönnum Selfoss í kvöld og segir Patrekur að þessi stuðningur sé ómetanlegur. 

„Þetta var frábært, ég er ánægður að fá að upplifa þetta. Það er ekkert sjálfgefið að þetta sé svona. Þegar við fórum til Slóveníu voru 20-30 manns með okkur og það var eins í umferðinni á undan. Það má ekki gleyma þessu fólki, það er mikið af sjálfboðaliðum og maður getur ekki annað en hrósað öllum þeim sem koma að handboltanum hér á Selfossi.”

Selfyssingar verða í pottinum þegar dregið verður í 3. umferð keppninnar í vikunni en Patrekur hræðist ekki leikjaálagið. 

„Við lékum á móti ÍBV á miðvikudaginn og þar spiluðu menn sem hafa kannski spilað minnað, ég verð að reyna að dreifa álaginu. Við erum í fínu standi og ég hef ekki áhyggjur af því að það verði þreyta. Auðvitað er spilað þétt, það eru fimm leikir á fimmtán dögum og við erum búnir með þrjá af þeim.”

„Við gleðjumst yfir þessu núna, leikmenn eiga að klappa sér á bakið og fá hrós. Núna fer ég heim og skoða Val”

 

Hergeir: Elska að spila á Selfossi
Hergeir elskar að spila á Selfossi.Vísir
„Við lærðum af þeim mistökum sem við gerðum úti og spiluðum bara hörku varnar- og sóknarleik. Í leiknum í Slóveníu vorum við ekki nógu ákafir, sérstaklega sóknarlega. Við vorum pínu hræddir við þá úti en núna vorum við bara geggjaðir."

„Við byrjuðum í framliggjandi vörn og náðum að sjokkera á aðeins, síðan fórum við í 5+1 vörn sem gekk líka vel. Við vorum bara að ná að brjóta á þeim í dag og taka frumkvæðið, síðan vorum við duglegir að finna lausnir sóknarlega."

Hergeir er sammála Patreki í því að stuðningurinn hafi verið magnaður í kvöld. 

„Það eru alveg geðveik læti í þessu húsi. Þetta var bara frábært og geggjað. Ég elska að spila á Selfossi, þetta er ógeðslega gaman."

„Við erum í góðu formi og undirbúum okkur vel. Ég held að þetta muni ekki hafa nein áhrif á okkur. Undirbúningur fyrir Val hefst bara á morgun. Valur er með frábært lið en ef að við spilum okkar leik þá hef ég engar áhyggjur af þessu."

Alexander Már: Stigum varla feilspor í dag
Haukur Þrastarson skoraði þrjú mörk í kvöldvísir/ernir
Alexander Már Egan var frábær í lið Selfyssinga í kvöld. Hann skoraði átta mörk úr níu skotum. Hann var einnig öflugur varnarlega. Alexander tekur undir það að frammistaða sín hafi verið góð. 

„Já, hún var mjög fín. Við vorum að fá góð færi og vorum að spila vel. Hergeir fékk ekki jafnmörg færi og ég í horninu, hann fær þau sennilega í næsta leik. Þetta var frábær spilamennska. 

„Við vorum mjög agaðir í dag og sterkir í vörninni. Pawel byrjaði vel en síðan kom Sölvi inn með þvílíkan kraft og notaði orkuna úr húsinu. Stigum valla feilspor í dag."

„Við erum með bestu stuðningsmennina á landinu og þeir bakka okkur upp í hverjum einasta leik."

Alexander segir að liði megi fagna í kvöld en síðan hefst undirbúningur fyrir stórleikinn gegn Val á miðvikudag. 

„Við fögnum í kvöld og förum núna á Krúsina (Kaffi Krús) og fáum okkur eitthvað gott að borða og síðan byrjum við að hugsa um Val. Það er ekkert flóknara."

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira