Umfjöllun og viðtöl: Fram - Akureyri 26-25 | Fram vann sigur í spennuleik

Guðlaugur Valgeirsson skrifar
vísir/bára
Fram vann í dag góðan sigur á Akureyri þegar liðin mættust í Safamýrinni í 5.umferð Olís deildar karla. Leiknum lauk með eins marks sigri, 26-25 í hörkuleik.

Framarar byrjuðu leikinn mun betur og það var nokkuð ljóst að þeir væru tilbúnir í dag en Guðmundur Helgi Pálsson þjálfari Fram sagði þá ekki hafa verið tilbúna í seinasta leik á móti Haukum. Þeir komust í 7-3 og þá fékk Sverre Andreas Jakobsson þjálfari Akureyrar nóg og tók leikhlé.

Það augljóslega virkaði vel því Akureyri komst betur inn í leikinn eftir þetta og náði að minnka muninn í eitt mark, 10-9 og náðu á endanum að jafna í 12-12. Þá tóku Framarar aftur við sér og náðu að enda hálfleikinn á 2-1 kafla og leiddu með einu marki í hálfleik, 14-13.

Hálfleikurinn endaði þó á rauðu spjaldi þegar fyrirliði Akureyrar, Friðrik Svavarsson fékk beint rautt fyrir að fara í andlitið á Þorsteini Gauta Hjálmarssyni leikmanni Fram. Áfall fyrir Akureyri en Friðrik var búinn að byrja leikinn nokkuð vel og klárt skarð fyrir skildi fyrir Akureyri.

Seinni hálfleikurinn hófst nánast alveg eins og sá fyrri, leikmenn Akureyrar mættu ekki klárir og Framarar náðu upp fjögurra marka forskoti nokkuð snemma í seinni hálfleik. En alveg eins og í fyrri hálfleik þá misstu Framarar þetta niður og Akureyri náði að komast aftur inn í leikinn. Sóknarleikurinn fór að hiksta hjá Fram og Akureyri gekk á lagið.

Þeir náðu að jafna og komast yfir í fyrsta sinn í leiknum þegar rétt rúmar 5 mínútur voru eftir, 23-22. En þá settu Framarar þó aðallega Aron Gauti Óskarsson í annan gír. Hann skoraði tvö frábær mörk og Framarar náðu að komast aftur yfir og halda út. 26-25 fyrir Fram og frábær sigur hjá þeim í mikilvægum leik. Miðað við allt nokkuð sanngjörn úrslit.

Af hverju vann Fram?

Markvarsla liðsins var mjög góð en það var þó skynsemi undir lokin sem réð úrslitum. Framarar voru rólegir og yfirvegaðir í sóknum sínum undir lokin á meðan leikmenn Akureyri voru óskynsamir og tóku rangar ákvarðanir. Framarar leiddu nánast allan leikinn og spurning hvort þeir hafi hreinlega ekki bara viljað þetta meira en leikmenn Akureyrar.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá Frömurum var markvarslan til fyrirmyndar. Viktor Gísli svaraði gagnrýni eftir landsliðsvalið og var flottur í dag, hann varði ekki bara þessa auðveldu bolta heldur tók marga stóra bolta sem skiptu miklu máli. Þorsteinn Gauti dró vagninn eins og svo oft áður fyrir Fram og endaði með 7 mörk úr 11 skotum. Aron Gauti kom svo með tvö stór og mikilvæg mörk undir lokin. Valdimar á línunni var illviðráðanlegur að venju.

Hjá Akureyri var Marius flottur í markinu en hann varði 16 skot og 1 víti í dag en það var því miður ekki nóg. Ihor var með 6 mörk úr 8 skotum og Gunnar Valdimar setti 5 úr 8 skotum.

Hvað gekk illa?

Ákvarðanataka Akureyringa undir lokin. Þeir komust yfir í fyrsta sinn þegar um það bil 5 mínútur voru eftir en eftir það voru þeir í vandræðum. Hafþór Vignisson var í smá basli í dag eftir frábæran leik seinast, hann endaði með 3 mörk úr 6 skotum og var með nokkra tapaða bolta. Garðar í horninu skoraði ekki mark úr þeim 3 skotum sem hann tók.

Friðrik fyrirliði liðsins fékk rautt spjald undir lok fyrri hálfleiks sem riðlaði þeirra leik. Eftir rauða spjaldið var töluvert minna um línuspil hjá Akureyri.

Hvað gerist næst?

Eftir góðan sigur í dag fá Framarar lið Gróttu í heimsókn til sín í Safamýrina. Það væri mjög sterkt fyrir þá að ná í annan sigurinn í röð. Akureyri fær Íslands- og bikarmeistara ÍBV í heimsókn til Akureyrar og munu væntanlega ekki gefa tommu eftir þar.

Sverre: Rangar ákvarðanir verða okkur að falli
Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyrar.vísir/getty
Sverre Andreas Jakobsson þjálfari Akureyrar var ekki sáttur með bæði byrjunina í fyrri hálfleik og seinni hálfleik í dag eftir tap liðsins gegn Fram.

„Það var svona hitt og þetta sem klikkaði í dag, byrjunin var ekki í takt við það sem við ætluðum okkur og ekki heldur byrjunin í seinni hálfleik en við vinnum okkur inn í leikinn og komumst yfir í lokin. Við eigum að vera skynsamari og það eru rangar ákvarðanir sem skera úr um sigur eða tap í þessum leik.”

Hann hafði engar útskýringar á byrjun liðsins í hálfleikunum og sagði einfaldlega nei þegar hann var spurður út í það.

Hann var ekki ánægður með hvernig liðið endaði leikinn í dag, en Marius markvörður liðsins kastaði boltanum langt fram þar sem Þorsteinn Gauti leikmaður Fram náði boltanum af þeim.

„Við eigum alveg 3 sendingar eftir og við eigum að setja boltann bara á Brynjar Hólm og við höfðum tíma til að gera meira en þetta. Hefðum átt að láta þetta fljóta í stað þessa að henda í einhverja erfiða, langa sendingu fram völlinn. Það er of mikil áhætta.”

Hann sá því miður ekki atvikið þegar Friðrik Svavarsson fékk rautt spjald undir lok fyrri hálfleiks og gat ekki tjáð sig um það.

Guðmundur Helgi: Vorum tilbúnir frá fyrstu mínútu
Guðmundur Helgi Pálsson var ánægður með sína menn í dag.vísir/bára
Guðmundur Helgi Pálsson þjálfari Fram sagði eftir seinasta leik að þeir hefðu ekki verið tilbúnir í þann leik, það var allt annað að sjá Framara í dag.

„Við vorum tilbúnir frá fyrstu mínútu og erum í rauninni að gera þetta of spennandi finnst mér og þetta var aðeins fyrir hjartað en þetta var mjög gaman og flottur leikur. Markverðirnir frábærir og varnirnar ágætar. Sóknarleikurinn hikstaði aðeins hjá okkur en þetta var bara fínt, ánægður með strákana.”

Hann sagði að það væri alveg eðlilegt að detta aðeins niður eftir góða byrjun í báðum hálfleikjum.

„Þeir lesa varnarleikinn sem er alveg eðlilegt og stemningin dettur aðeins niður en það er ekkert sem ég hef áhyggjur af en við þurfum að halda þessu lengur áður en slæmu kaflarnir koma.”

Hann neitaði því þegar hann var spurður hvort að Þorsteinn Gauti væri orðinn nýi Arnar Birkir liðsins og mikilvægastur í liðinu sagði Gummi liðið vera í þessu saman og það væru allir að leggja jafnmikið af mörkum.

„Alls ekki, við erum allir í þessu saman, hann er búinn að vera mjög góður og verður það vonandi áfram en minn maður í hægri skyttunni (Aron Gauti) steig upp í restina og kláraði þetta fyrir okkur,” sagði Guðmundur Helgi þjálfari Fram sáttur eftir leik.

Viktor Gísli: Gott að svara gagnrýni
Viktor Gísli Hallgrímsson leikmaður Fram.Fram
Viktor Gísli Hallgrímsson markvörður Fram var mjög ánægður með sigurinn í dag en hann var frábær í markinu og varði mikilvæga bolta þegar á þurfti.

„Mjög ánægður með þetta, byrjum báða hálfleika vel en það koma partar þar sem þeir ná að jafna en við höldum út og þetta var bara geggjað.”

Hann segist ekkert verða var við gagnrýnina sem sumir hafa verið með eftir að hann var valinn í landsliðshópinn á dögunum.

„Gott að svara með góðum leik en ég er ekkert var við þetta, ekkert heyrt neitt. Ég held bara áfram að gera mitt.”

Spurður út í næsta leik segir hann mikilvægt að ná að fylgja þessum leik eftir og sigra Gróttu.

„Við verðum að taka næsta leik, þetta er 4 stiga leikur í baráttunni og við verðum að klára það,” sagði Viktor Gísli sem var mjög góður í dag og svaraði kallinu svo sannarlega.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira