Innlent

Fréttir Stöðvar 2 í beinni útsendingu

Sádi-arabísk stjórnvöld munu svara mögulegum refsiaðgerðum vegna hvarfs blaðamannsins Jamal Khashoggi með umfangsmeiri aðgerðum. Utanríkisráðherrar Bretlands, Frakklands og Þýskalands krefjast svara í sameiginlegri yfirlýsingu. Þrýstingur eykst úr öllum áttum og fjallað verður nánar um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Ung kona sem rekur veikindi til myglu í húsnæði á vegum Félagsbústaða segist hafa fengið lítil sem engin viðbrögð þaðan þrátt fyrir vikulegar kvartanir mánuðum saman. Hún segir marga í svipuðum sporum. Framkvæmdastjóri Félagsbústaða lét af störfum um helgina og von er á skýringum á málinu á morgun.

Við skoðum nýjan ofurdróna sem hefur verið þróaður miðað við íslenskar aðstæður. Dróninn býður uppá nýja möguleika í leit og björgun hér á landi. Hægt er að greina smáatriði úr mikilli fjarlægð og leita af fólki í myrkri og óveðri.

Eldri borgarar á sunnanverðum Vestfjörðum sem ekki geta búið heima þurfa annað hvort að dvelja á sjúkrahúsinu á Patreksfirði eða flytja suður. Tálknafjarðarhreppur hyggst bregðast við skorti á hjúkrunarrýmum á svæðinu og á í viðræðum við Hrafnistu um uppbyggingu hjúkrunarheimilis.

Við lítum í heimsókn í nýja einangrunarstöð fyrir hunda og ketti. Þar fá dýrin sjónvarp og hundarnir fá hlaupabretti.

Þetta og margt fleira í kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan 18:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×