Enski boltinn

Heaton íhugar að yfirgefa Burnley

Smári Jökull Jónsson skrifar
Heaton meiddist í upphafi síðustu leiktíðar.
Heaton meiddist í upphafi síðustu leiktíðar. Vísir/Getty
Tom Heaton, liðsfélagi Jóhanns Bergs Guðmundssonar hjá Burnley, viðurkennir að hann gæti þurft að yfirgefa félagið þegar félagaskiptaglugginn opnar í janúar en hann hefur þurft að sitja á bekknum í upphafi leiktíðarinnar á Englandi.

„Ég þarf að halda öllum möguleikum opnum. Það sem ég hef haldið mig við á mínum ferli er að skipta um félag til að spila leiki," sagði Heaton í viðtali við Daily Mirror.

Heaton fór úr axlarlið í leik gegn Crystal Palace fyrir rúmu ári síðan og var frá það sem eftir var síðustu leiktíðar. Nick Pope tók stöðu hans í markinu, sló í gegn og var meðal annars valinn leikmaður ársins hjá Burnley að tímabilinu loknu.

„Hann var réttilega útnefndur leikmaður tímabilsins. Hann komst í landsliðshóp Englands, þannig virkar fótboltinn," bætti Heaton við en hann var sjálfur búinn að vinna sér sæti í landsliðinu og lék meðal annars með liðinu gegn Frökkum á Stade de France í æfingaleik.

Pope síðan einnig úr axlarlið í æfingaleik í júlí var Joe Hart fenginn til liðsins. Hann fékk tækifærið í upphafi leiktíðar og hefur haldið Heaton á bekknum.

„Joe var settur í liðið í Evrópudeildinni gegn Basaksehir og hélt sætinu í fyrsta leiknum í deildinni sem var pirrandi fyrir mig."

„Ég ætla ekki að ljúga, það var erfitt. Ég þekki Joe vel og ber mikla virðingu fyrir honum en ef ég á að vera hreinskilinn þá bjóst ég við að spila," sagði Heaton og bætti við að það hafi verið erfitt að fylgjast með enska liðinu á Heimsmeistaramótinu í Rússlandi.

„Það var erfitt því þig langar svo mikið að vera með. Á sama tíma ertu auðvitað stuðningsmaður Englands. Ég eyddi tíma með Adam Lallana því við vorum í fríi á sama tíma og við horfðum saman á leiki í Dubai. Líðan okkar var svipuð," en Lallana missti einnig af Heimsmeistaramótinu vegna meiðsla eftir að hafa verið fastamaður í enska liðinu í undankeppninni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×