Lífið

Svamlaði nakinn um hákarlabúr

Andri Eysteinsson skrifar
Tígrishákarl syndir hér um höfin blá, fjarri nakta manninum í Toronto.
Tígrishákarl syndir hér um höfin blá, fjarri nakta manninum í Toronto. Getty/Reinhard Dirscher
Gestir Ripley sædýrasafnsins í miðbæ Toronto fengu meiri sýningu en þeir borguðu fyrir síðasta föstudag. Óvænt atvik varð þegar karlmaður með strípihneigð afklæddi sig og stakk sér til sunds í hákarlabúri safnsins. CBC Toronto greinir frá.

Maðurinn stökk ofan í 2.9 milljón lítra búr sem kallað er Hættulega lónið (e. Dangerous Lagoon) og er heimili fjölda tígrishákarla. Slíkar skepnur geta orðið yfir fimm metrar að lengd og er ein sú skæðasta hákarlategund heimshafanna. 

Það var þó ekki nóg til þess að maðurinn léti af þessu athæfi sínu en á myndböndum má sjá manninn synda bringusund á meðan að hákarlarnir synda rétt fyrir neðan hann.

Öryggisverðir báðu manninn um að yfirgefa búrið og safnið en hann neitaði. Maðurinn virtist þó orðinn þreyttur á sundinu þegar hann klifraði upp á brún búrsins, þar tók hann sig þó til og stökk afturábak heljarstökk ofan í hákarlabúrið.

Vitni segja manninn hafa verið skælbrosandi, nakinn og pollrólegan. Öryggisverðir hringdu á lögreglu sem mætti á staðinn eftir að maðurinn hafði yfirgefið búrið. Lögreglan í Toronto leitar því enn mannsins og segir athæfi hans hafa verið stórhættulegt og tók fram að engin sjávardýr hefðu hlotið skaða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×