Handbolti

Vignir verður ekki áfram hjá Holstebro en útilokar ekki að halda áfram í handbolta

Anton Ingi Leifsson skrifar
Vignir í landsleik en hann hefur einnig leikið sinn síðasta landsleik.
Vignir í landsleik en hann hefur einnig leikið sinn síðasta landsleik. vísir/ernir
Danska handboltaliðið TTH Holstebro greindi frá því á dögunum að línumaðurinn Vignir Svavarsson muni ekki fá nýjan samning hjá félaginu en Vignir er 38 ára.

Vignir hefur spilað 84 leiki fyrir Holstebro og varð meðal annars bikarmeistari með liðinu á síðustu leiktíð.  Hann skoraði meðal annars sigurmarkið í undanúrslitunum.

„Ég bjóst við því að tími minn hjá TTH væri senn á enda. Ég skil fullkomnlega þessa ákvörðun og að samvinnu okkar ljúki eftir tímabilið," sagði Vignir við heimasíðu félagsins.

Hann segist hafa kynnst fullt af góðu fólki í Danmörku og á sínum langa ferli en hann býst ekki við að fara að þjálfa er ferlinum lýkur.

„Hugurinn leitar ekki þangað og það er ekki metnaðurinn en það verður skrýtið eftir 1-2 ár að pakka handboltanum niður sem hefur verið hluti af þínu lífi í tuttugu ár. Það er spennandi og skelfilegt á sama tíma."

Hann útilokar ekki að hætta spila handbolta en fyrst og fremst vill hann ná sér að meiðslum sem hafa verið að hrjá hann á þessu tímabili og því síðasta.

„Á þessum tímapunkti er hugur minn að ná líkamanum af stað á ný og verða meiðslalaus. Ég hef enn löngun í að spila handbolta en þetta snýst um líkamann. Ég held öllu opnu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×