Erlent

Opinbera rússneska njósnara

Samúel Karl Ólason skrifar
Við komuna til Hollands tók starfsmaður sendiráðs Rússlands á móti þeim. Hér er hins vegar verið að vísa þeim úr landi.
Við komuna til Hollands tók starfsmaður sendiráðs Rússlands á móti þeim. Hér er hins vegar verið að vísa þeim úr landi. AP/Varnarmálaráðuneyti Hollands
Löggæslu- og öryggisstofnanir Hollands hafa nafngreint og birt myndir af fjórum rússneskum mönnum sem þeir segja vera útsendara leyniþjónustu rússneska hersins, GRU. Mennirnir eru sakaðir um að hafa gert tölvuárás á Efnavopnastofnunina, OPCW, í apríl, en Hollendingum tókst að koma í veg fyrir að árásin heppnaðist, með aðstoð Breta.

OPCW hefur meðal annars komið að rannsókninni á Skripal-eitruninni, þar sem Rússar eru sakaðir um að hafa beitt taugaeitrinu Novichok til að ráða fyrrverandi njósnarann Sergei Skripal af dögum í byrjun mars. OPCW var einnig að rannsaka efnavopnaárásina á Douma á þeim tíma. Stjórnarher Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, hefur verið sakaður um að framkvæma árásina en Rússar hafa sakað breta um að sviðsetja hana.

Skýr skilaboð

„Þessi aðgerð gegn OPCW er óásættanleg,“ sagði Ank Bijleveld-Schouten, varnarmálaráðherra Hollands, á blaðamannafundi nú í morgun. „Með því að opinbera aðgerðir Rússa erum við að senda skýr skilaboð: Rússland verður að hætta þessu.“



Peter Wilson, sendiherra Breta í Hollandi, sló á svipaða strengi og sagði að GRU gæti einungis „unnið í skugganum“. Með því að varpa ljósi á aðgerðir þeirra væri hægt að koma í veg fyrir aðgerðir þeirra.



Fyrr í morgun höfðu yfirvöld Bretlands sakað Rússa um fjórar umfangsmikla tölvuárásir gegn fyrirtækjum í bæði Rússlandi og Úkraínu, gegn Demókrataflokknum í Bandaríkjunum og sjónvarpsstöð í Bretlandi.

Frétt Sky um ásakanir Breta í morgun.

Theresa May og Mark Rutte, forsætisráðherrar Bretlands og Hollands, sendu frá sér sameiginlega tilkynningu í morgun þar sem þau segja aðgerðirnar sýna fram á skeytingarleysi GRU fyrir alþjóðareglum og viðmiðum sem ætlað er að vernda heiminn.

Lögðu sérútbúnum bíl við höfuðstöðvar OPCW

Ank Bijleveld sagði í morgun að mönnunum fjórum hefði verið vísað úr landi og þeir tilheyrðu allir sveitinni Sandworm, sem er sérstök sveit hakkara innan GRU. Hald var lagt á allan búnað þeirra. Þar á meðal fartölvur og síma.

Samkvæmt Hollendingum ferðuðust mennirnir fjórir, sem heita Alexei Morenetz, Yevgeny Serebriakov, Oleg Sotnikov og Alexei Minin, til Hollands frá Moskvu þann 10. apríl með opinberum vegabréfum. Þann 13. apríl lögðu þeir bíl, sem hafði verið útbúinn sérstökum tölvuárásabúnaði, fyrir utan höfuðstöðvar OPCW.

Búnaðurinn í bíl mannanna.AP/Varnarmálaráðuneyti Hollands
Í bílnum var sérstakt loftnet sem mennirnir notuðu til að reyna að ná lykilorðum að innra neti OPCW.

Skömmu áður hafði GRU reynt að komast inn í kerfi OPCW með svokölluðum „spearphishing“ árásum. Þær felast í því að senda tölvupósta á fólk, sem látnir eru líta út fyrir að koma frá stofnunum eða fyrirtækjum og fá fólk til að gefa upp lykilorð sín. Árásin á Demókrataflokkinn, í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum 2016 var framkvæmd með slíkum hætti.

Þegar mennirnir fjórir voru handsamaðir reyndu þeir að eyðileggja síma sem þeir voru með en án árangurs. Rannsókn sýndi að einn síma þeirra hafði fyrst verið gangsettur í höfuðstöðvum GRU. Það uppgötvaðist með því að finna fyrsta símasendinn sem síminn tengdist.

Mennirnir voru einnig með tuttugu þúsund evrur og tuttugu þúsund dali í reiðufé. Þar að auki fannst kvittun í rusli þeirra sem mennirnir höfðu fengið hjá leigubílstjóra í Moskvu. Hún sýndi að þeim hafði verið ekið frá höfuðstöðvum GRU til flugvallarins í Moskvu.

Kvittunin sem fannst í fórum mannanna.Vísir/Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna
Þá fundust upplýsingar um að fartölva sem mennirnir voru með hefði einnig verið notuð í Brasilíu, Sviss og Malasíu. Tölvan var meðal annars notuð til að gera árásir á lögregluna og Ríkissaksóknara Malasíu, sem komu að rannsókninni á malasísku flugvélinni MH17 sem var skotin niður yfir yfirráðasvæði aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu. Þeir eru studdir af Rússum og hollensk rannsóknarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að Rússar hefðu útvegað aðskilnaðarsinnunum vopnið sem notað var til að skjóta flugvélina niður.

Í Sviss var tölvan notuð til árásar á tölvu Alþjóða lyfjaeftirlitsstofnunarinnar, sem hefur opinberað skipulagða lyfjanotkun rússneskra íþróttamanna.

Wilson sagði ljóst að GRU ynni að því að hreinsa upp eftir yfirvöld Rússlands.

Fjöldi sönnunargagna

Það er afar sjaldgæft að leyniþjónustur rannsóknir sínar og aðferðir með þeim hætti sem Hollendingar hafa gert í morgun. Máli þeirra til stuðnings sýndu Hollendingar fjölda sönnunargagna.

Hér má sjá áhugaverðan tísta-þráð blaðakonu BBC, sem fylgdist með blaðamannafundinum og tók myndir af sönnunargögnum Hollendinga.

Vert er að taka fram að Rússar hafa þvertekið fyrir að hafa komið að öllum atvikunum hér að ofan. Skripal-eitruninni, örlögum MH17 og öllum tölvuárásunum. Í yfirlýsingu frá sendiráði Rússlands í London segir að þessar nýjustu ásakanir séu liður í alþjóðasamsæri gegn Rússlandi sem ætlað sé að draga úr trúverðugleika þeirra. Þá segir, ranglega, að ásökununum fylgi engar sannanir.

Maria Zakharova, talskona Utanríkisráðuneytis Rússlands, tjáði sig um málið skömmu fyrir hádegi.

Fréttin hefur verið uppfærð og myndinni af kvittuninni bætt við.


Tengdar fréttir

Annar Rússinn opinberaður sem ofursti í GRU

Annar mannanna sem grunaðir eru um að hafa reynt að myrða Sergei Skripal og dóttur hans Yuliu heitir raunverulega Anatoliy Chepiga og er ofursti í leyniþjónustu rússneska hersins, GRU.

Pútín kallar Skripal svikara og drullusokk

Vladimir Pútín, forseti Rússlands, er ósáttur við að einhverjir fjölmiðlar séu að reyna að gera einhvern mannréttindasinna úr rússneska njósnaranum fyrrverandi, Sergei Skripal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×