Enski boltinn

Cech: Wenger fannst stíllinn mikilvægari en úrslitin

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Petr Cech.
Petr Cech. Vísir/Getty
Petr Cech átti frábæran leik í marki Arsenal í gær og hélt marki sínu hreinu þegar Everton mætti á Emirates völlin. Markvörðurinn segir leikstíl Arsene Wenger eina af ástæðum titlaleysis Arsenal síðustu ár.

Cech kom til Arsenal frá Chelsea árið 2015. Á þeim þremur árum sem Tékkinn hefur verið á Emirates vellinum hefur Arsenal unnið tvo titla, ensku bikarkeppnina einu sinni og Samfélagsskjöldinn einu sinni.

Í viðtali sem birtist í breska blaðinu Guardian segir Cech að undir Arsene Wenger, sem hætti sem stjóri Arsenal eftir 22 ár í sumar, hafi áherslan verið of mikil á að spila sérstakan leikstíl í stað þess að hafa fókusinn á úrslitum og titlum.

„Að spila eftir „Arsenal leikstílnum“ var stundum mikilvægara en að ná í stig. Þú vinnur deildina ekki þannig,“ sagði Cech.

Tékkinn á fjóra Englandsmeistaratitla sem hann vann með Chelsea.

„Stundum þarftu að vinna ljótu leikina, þegar þú spilar ekki alveg nógu vel. Loka fyrir og vinna 1-0, sama hvernig þú ferð að því.“

Cech finnst andrúmsloftið hafa breyst síðan Unai Emery tók við og segir æfingarnar erfiðari og liðið nái betri einbeitingu.

„Þetta lið hefur ekki unnið deildina í tíu ár svo það er augljóst að við þurfum að læra hvernig á að fara að því. Við byrjum frá grunni með nýjan stjóra og förum inn með hugarfarið að vinna alla leiki,“ sagði Petr Cech.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×