Fótbolti

Gullboltinn veittur í kvennaflokki í fyrsta skipti

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gullboltinn eftirsótti
Gullboltinn eftirsótti getty
Gullboltinn, Ballon d'Or, verður í ár í fyrsta skipti einnig veittur besta leikmanni kvennaboltans.

Gullboltinn hefur í áraraðir verðlaunað besta karlkyns fótboltamanninn, allt frá því 1956 þegar Stanley Matthews var útnefndur bestur. Tímaritið France Football stendur fyrir verðlaununum. Á árunum 2010 og 2015 voru þau veitt í samstarfi við FIFA en síðan 2016 hefur FIFA veitt sín eigin verðlaun, FIFA Best.

France Football tilkynnti í dag að í ár verði bestu konu ársins einnig veittur gullbolti.

„Kvennaboltinn er í mikilli sókn og á skilið sömu virðingu og karlaboltinn,“ sagði aðalritstjóri tímaritsins Pascal Ferre.

Í október verður tilkynnt hvaða 15 konur eru tilnefndar til verðlaunanna, á sama tíma og listi þeirra 30 karla sem eru tilnefndir verður tilkynntur.

Það er ólíklega tilviljun að tímaritið ákveði daginn í dag til þess að tilkynna um nýju verðlaunin, en FIFA er með sína verðlaunaafhendingu í kvöld þar sem sambandið útnefnir bestu leikmenn ársins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×