Viðskipti innlent

Advania keypti Wise fyrir 800 milljónir króna

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania á Íslandi
Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania á Íslandi
Advania keypti fyrr í mánuðinum allt hlutafé í Wise fyrir 800 milljónir króna, að því er fram kemur í tilkynningu sem seljandinn, Akva Group, sendi norsku kauphöllinni. Nokkrir stjórnendur Wise eiga rétt á bónusgreiðslum upp á samanlagt 20 milljónir króna þegar kaupin ganga endanlega í gegn.

Advania mun greiða Akva 799 milljónir króna í reiðufé og þá hyggst Akva lána félaginu 250 milljónir króna. Kaupin bíða samþykkis Samkeppniseftirlitsins en gert er ráð fyrir að þau gangi í gegn á fjórða fjórðungi síðasta árs eða fyrsta fjórðungi næsta árs.

Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið tilkynnti um kaupin í byrjun mánaðarins en í tilkynningunni kom ekki fram hvert kaupverðið væri. Norræni fjárfestingabankinn Beringer Finance var ráðgjafi Akva Group í viðskiptunum.

Wise selur Microsoft Dynamics NAV bókhalds- og viðskiptahugbúnaðinn og hefur sérhæft sig í lausnum fyrir meðal annars sveitarfélög og sjávarútveg. Félagið hagnaðist um ríflega 94 milljónir króna á síðasta ári og var velta þess á sama tíma um 1.479 milljónir króna.

Leiðrétt: Í upphaflegu fréttinni stóð að hlutaféð hafi verið keypt á 1.050 milljónir króna. Reyndin er heildarvirði fyrirtækisins, hlutafé og skuldir, er um milljarður. Forsvarsmenn Advania bentu Fréttablaðinu á villuna.




Tengdar fréttir

Advania kaupir Wise

Hugbúnaðarfyrirtækið Advania hefur fest kaup á fyrirtækinu Wise, þar þar sem starfa um 80 sérfræðingar í hugbúnaðargerð, ráðgjöf og þjónustu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×