Innlent

RÚV vinni að því að framfylgja lögum

Sveinn Arnarsson skrifar
Ráðherra segir skýrt að RÚV beri að stofna dótturfélög um samkeppnisrekstur.
Ráðherra segir skýrt að RÚV beri að stofna dótturfélög um samkeppnisrekstur. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK
„Það er mjög skýrt að samkvæmt fjórðu grein laga um Ríkisútvarpið ber RÚV að stofna dótturfélög um samkeppnisrekstur sinn. Ég tel brýnt að hrinda því í framkvæmd og stjórn RÚV og stjórnendur hafa verið að vinna að því. Það er stjórnar RÚV að fylgja þessu eftir,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra.

Samtök iðnaðarins sendu stjórn RÚV nýverið bréf þar sem hvatt er til þess að allur samkeppnisrekstur RÚV verði settur í dótturfélög. Það sé forsenda heilbrigðs markaðar og frjálsrar samkeppni að allir aðilar á markaði starfi eftir sömu reglum.

„Mér finnst mikilvægt að tryggja aðskilnað á milli almannahlutverks og samkeppnisreksturs RÚV. Það er í takt við tillögurnar sem ég kynnti nýverið og miða að því að styðja við einkarekna fjölmiðla. Það er ljóst að RÚV er þjóðinni kært og ég vil hafa öflugan miðil í almannaþágu.“

Það sé hagur allra að hér sé öflugur miðill í almannaþágu en líka að það séu öflugir einkareknir fjölmiðlar. „Við þurfum að stuðla að auknu jafnræði á íslenskum fjölmiðlamarkaði.“

Lilja segir að í kjölfar umræddra tillagna hafi verið sett af stað vinna í ráðuneytinu sem tengist RÚV. Meðal þess sem verið sé að skoða sé auglýsingamarkaðurinn.




Tengdar fréttir

Stjórnarmanni RÚV blöskrar tillögur ráðherra

Mörður Árnason, stjórnarmaður RÚV, telur að stjórn RÚV þurfi að koma saman sem allra fyrst til þess að fjalla um tillögur menntamálaráðherra sem kynntar voru í dag. Hann segir vinnubrögð ráðherra vera "skrýtin“

Stefna að því að bæta RÚV upp tekjutapið

Endurgreiða á hluta ritstjórnarkostnaðar einkarekinna fjölmiðla og minnka umsvif RÚV á auglýsingamarkaði um 560 milljónir á ári samkvæmt tillögum mennta- og menningarmálaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×