Viðskipti innlent

Samþjöppun í ferðaþjónustu framundan

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Búast má við samþjöppun í ferðaþjónustu á næstu misserum að mati sérfræðinga í greininni. Prófessor við Háskóla Íslands veltir fyrir sér hvort ferðaþjónusta verði fórnarlamb eigin velgengni eða takist að laga sig að breyttum aðstæðum. Framkvæmdastjóri Meet in Reykjavík sér tækifæri í stöðunni.

Samtök ferðaþjónustunnar héldu fund um stöðu greinarinnar í dag, með tilliti til lífskúrfu og efnahagsmála. Gylfi Zoega prófessor við Háskóla Íslands einn framsögumanna þar segir að gengi ferðaþjónustu hafi gríðarmikil áhrif á gengi krónunnar. 

Gylfi Zoega prófessor við Háskóla Íslands einn framsögumanna þar segir að gengi ferðaþjónustu hafi gríðarmikil áhrif á gengi krónunnar.Mynd/Egill Aðalsteinsson
„Stóra myndin er sú að þessi grein hefur lyft lífskörum hér á landi á undanförnum árum og svo er bara spurning um hvort að hún verði fórnalamb eigin velgengni með því að gera landið svona dýrt, hvernig greinin sjálf muni bregðast við,“ segir hann.  

Gylfi segir samdrátt í greininni hafa margvísleg áhrif. 

„Ef greinin gefur eftir þá mun krónan og landið verða ódýrara sem mun eitthvað draga úr fallinu. Þetta er hins vegar mjög erfitt umhverfi að vera í sérstaklega fyrir fyrirtæki úr öðrum útflutningsgreinum. Þau horfa upp á að landið verða dýrara af því ferðaþjónustan þenst út og svo skreppur hún saman og þá verður það ódýrara, segir Gylfi. 

Hann segir að á  fundinum hafi verið rætt um hvað breytt staða þýði fyrir ferðaþjónustuna og menn talið að þar verði samþjöppun.

Þorsteinn Örn Guðmundsson framkvæmdastjóri Meet in Reykjavík tekur undir það en sér margvísleg tækifæri í stöðunni. 

„Það verður einhver samþjöppun og endurskipulagning í greininni. Það er hægt að líta á það sem slæmt en það er líka hægt að sjá í því tækifæri sem ég held við ættum að gera og einblína á betur borgandi ferðamenn eins og t.d. ráðstefnugesti“ segir Þorsteinn.  


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×