Innlent

Forsætisráðherra og forystufólk stjórnarandstöðunnar í Víglínunni

Heimir Már Pétursson skrifar
Víglínan hefur göngu sína á ný að loknu sumarleyfi á Stöð 2 og Vísi klukkan 12:20 í dag. Heimir Már Pétursson fréttamaður fær til sín Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra ásamt fulltrúum allra stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi.

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingflokksformaður Pírata verða með Katrínu í fyrri hluta þáttarins en í seinni hlutanum sitja þau Inga Sæland formaður Flokks fólksins, Þorsteinn Víglundsson varaformaður Viðreisnar og Þorsteinn Sæmundsson þingmaður Miðflokksins fyrir svörum og eiga orðastað við forsætisráðherra.

Alþingi kom saman á þriðjudag og þá var annað fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur lagt fram. Í þættinum verður farið yfir helstu áherslur frumvarpsins sem stjórnarandstaðan hefur ýmislegt við að athuga, þótt hún sé ekki einróma í gagnrýni sinni á frumvarpið. Þá verða horfur í þingstörfum á þessum fyrsta heila vetri ríkisstjórnarinnar ræddar og fleira.

Víglínan er í opinni dagskrá og beinni útsendingu á Stöð 2 og Vísi klukkan 12:20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×