Skoðun

KR!

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Fyrstu sex ár ævi minnar ólst ég upp á Melunum. Ólíkt Kópavogi er gott að búa í 107 en þangað fluttu foreldrar mínir mig einmitt nauðugan.

Melarnir eru fallegasti og besti staður á landinu og sá sem býr þar þarf ekki að leita lengra frekar en hann kærir sig um. Og ég kærði mig bara ekkert um að fara.

KR hefur mest tilfinningagildi fyrir okkur á og frá Melunum. Fótboltaklúbburinn í Frostaskjólinu er sverð okkar, sómi og röndóttur skjöldur, í blíðu og stríðu.

Saga KR er ekki óslitin sigurganga. Við getum samt alveg sætt okkur við að fá ekki titil nema á svona tuttugu til þrjátíu ára fresti vegna þess að KR er miklu meira en bara fótbolti, eða körfubolti ef út í það er farið.

Að vera KR-ingur er löng kennslustund í þolinmæði, að sætta sig við mótlæti, kyngja vonbrigðum og stolti án þess að gefast upp. Við KR-ingar erum svolítið eins og Jedi-riddarar þar sem við höfum í gegnum áratugina staðið andspænis ofureflinu, vitandi að jafnvel í ósigrinum erum við betri en andstæðingarnir, sameinaðir í hatri á okkur.

Styrkur KR og stærð eru fyrst og fremst fólgin í því að sama hvernig gengur elska keppinautarnir að hata okkur. Leggja jafnvel stundum meira upp úr hatri sínu á KR en fylgispekt við eigið lið. Fyndið, vegna þess að þannig sigrum við líka þegar við töpum.

Ég sef þess vegna bara alveg ágætlega á Grenimelnum á meðan brimsalt sjávarrokið lemur á gluggarúðunum og að Breiðablik, úthverfaliðið sem svikararnir pabbi minn og litla systir gengu til liðs við á meðan ég afplánaði Kópavoginn, er einu sæti fyrir ofan okkur í deildinni.

Við KR-ingar erum nefnilega búnir að vinna þótt mótið sé ekki búið.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×