Enski boltinn

Segir gagnrýnina vera óvirðingu við Emery

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Unai Emery, nýr stjóri Arsenal, í fyrsta leiknum um helgina.
Unai Emery, nýr stjóri Arsenal, í fyrsta leiknum um helgina. Vísir/Getty
Eftir 2-0 tap Arsenal gegn Mancester City í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar hefur Unai Emery, nýr knattspyrnustjóri Arsenal, fengið mikla gagnrýni fyrir leikskipulag sitt.

Sam Allardyce, fyrrum stjóri Everton, sagði á mánudag að það væri „heimskulegt“ af Emery að reyna að spila út úr vörninni gegn liði eins og Manchester City.

Markmaðurinn Petr Cech reyndi fleiri sendingar í leiknum á sunnudag heldur en í öllum leikjum sínum á síðasta tímabili. Hann tapaði boltanum 11 sinnum í leiknum.

Liam Rosenior, fyrrum fótboltamaður sem nú er pistlahöfundur fyrir Guardian, sagði í spjallþættinum The Debate á Sky Sports að gagnrýnin á Emery væri óvirðing við nýja stjórann.

„Emery hefur líklega farið til forráðamanna Arsenal og sagt að þetta sé leikstíll hans. Þetta er það sem ég get gefið ykkur, ekki bara í eitt ár heldur þrjú, fjögur eða fimm,“ sagði Rosenior.

„Þetta Arsenal lið er búið að vera í vandræðum í nokkur ár og það tekur tíma að byggja upp eitthvað nýtt. Ef þú yfirgefur þá uppbyggingu strax þá ertu nú þegar búinn að tapa. Það tók Pep Guardiola tíma að fá Manchester City til þess að spila eins og hann vildi.“

„Emery kemur inn til Arsenal og hann er að reyna að spila á svipaðan hátt. Hann vann titla með Sevilla, vann Evrópudeildina þrisvar í röð, og mér finnst það óvirðing að lesa yfir honum fyrir það að reyna að gera það sama og Jurgen Klopp og Pep Guardiola hafa fengið að gera áður.“

„Sam Allardyce var að hrauna yfir stjóra sem var að stýra sínum fyrsta leik á móti besta liði deildarinnar og reyna að koma sínum leikstíl og hugarfari að hjá nýju félagi,“ sagði Rosenior.

Næsti leikur Arsenal er ekki mikið auðveldara verkefni, Emery fer með sína menn á Stamford Bridge og mætir Chelsea í Lundúnaslag á laugardag.


Tengdar fréttir

Nýtt tímabil, sömu vandamál

Arsenal tapaði 0-2 á heimavelli fyrir Englandsmeisturum Manchester City í fyrsta deildarleik liðsins undir stjórn Unais Emery. Miðað við frammistöðu Arsenal í gær á spænski stjórinn enn mikið verk fyrir höndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×