Fótbolti

Íslenska karlalandsliðið hrynur á FIFA-listanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Vísir/Getty
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta kemur mjög illa út úr breytingum á útreikningi á nýjum styrkleikalista FIFA.

Íslenska landsliðið dettur niður um heil tíu sæti og er núna í 32. sæti listans. Ísland er reyndar í 32. til 34. sæti með Íran og Kosta Ríka.

Íslenska landsliðið var í 22. sæti á síðasta lista sem var birtur rétt fyrir HM í Rússlandi í júní. Íslenska liðið hafði líka verið nokkrum sinnum inn á topp tuttugu á síðustu mánuðum þar á undan.

FIFA breytti útreikningum sínum og seinkaði birtingu listans um eina viku. Samkvæmt gömlu útreikningunum hefði íslenska liðið aðeins dottið niður um tvö sæti á listanum.





Evrópuþjóðir sem komust ekki á HM í Rússlandi í sumar en eru núna fyrir ofan Ísland á FIFA-listanum eru Holland (17. sæti), Wales (19. sæti), Ítalía (21. sæti), Austurríki (23. sæti) Slóvakía (26. sæti), Norður-Írland (27. sæti), Rúmenía (28. sæti) og Írland (29. sæti).

Pólverjar falla líka niður um tíunda sæti eins og við Íslendingar en pólska landsliðið telst nú vera átjánda besta landslið heims.

Heimsmeistarar Frakka hoppa upp um sex sæti og eru í efsta sæti listans. Þetta er í fyrsta sinn síðan 2002 sem Frakkar eru efstir á FIFA-listanum. Belgar eru í 2. sæti og Brasilíumenn í því þriðja. Króatar eru komnir upp í fjórða sæti eftir góða frammistöðu sína á HM en þeir taka sextán sæta stökk á listanum.





Úrúgvæ fer upp um níu sæti í 5. sæti og enska landsliðið hoppar upp um sex sæti og er núna í 6. sæti listans.

Þjóðverjar detta hinsvegar niður um heil fjórtán sæti og eru núna „bara“ með fimmtánda besta landslið heims. Argentínumenn detta niður um sex sæti og eru í 11. sætinu.

Hér má sjá allan FIFA-listann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×