Innlent

Skoða hvort banna eigi iðkendur sem hafa verið fundnir sekir um kynferðisbrot

Birgir Olgeirsson skrifar
Alþjóðleg ráðstefna um kynjajafnrétti í íþróttum fer fram þessa dagana í Háskólanum í Reykjavík. Í dag kynnti framkvæmdastjóri Íþrótta- og ólympíusambands Íslands viðbrögð ÍSÍ eftir Metoo-byltingu íþróttakvenna, þar sem fram komu 62 frásagnir af kynferðislegri áreitni og ofbeldi.

Líney sagði ÍSÍ hafa endurskoðað allt efni sambandsins sem við kemur kynferðislegri áreitni og ofbeldi og komið því á framfæri með meiri og betri hætti til íþróttafélaga.

Fyrir nokkrum árum bauð ÍSÍ upp á fræðslu um kynferðislega áreitni og ofbeldi. Aðeins fimm félögum þáðu þá fræðslu en eftir Metoo vildu allir vera með.

„Þetta vakti alla í samfélaginu og ekki síst okkur innan íþróttahreyfingarinnar,“ segir Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ.

Starfsmenn og sjálfboðaliðar íþróttahreyfingarinnar sem hafa verið fundir sekir um kynferðislega áreitni eða kynferðislegt ofbeldi mega ekki starfa þar. Nú er til skoðunar væri hvort líka eigi að banna iðkendur, sem gerst hafa sekir um brot, frá keppnum og æfingum.

„Ég held að við þurfum að skoða alla vinkla á þessum málum og það er það sem við munum reyna að gera. Þetta eru oft mjög flókin mál. Þetta getur verið hvort sem það er þjálfari, iðkandi, utanaðkomandi aðili og iðkandi, þetta getur verið iðkandi iðkandi, þannig að við þurfum virkilega að skoða og sjá hvað við þurfum að gera og hvernig við getum brugðist við.“

Á næstu dögum verða kynntar tillögur starfshóps mennta- og menningarmálaráðuneytis sem skipaður var í kjölfar metoo yfirlýsingar íþróttakvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×