Enski boltinn

Fyrrum stjarna Man. United: Pogba búinn að vera martröð fyrir félagið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Pogba.
Paul Pogba. Vísir/Getty
Goðsögnin Paul Ince lætur nýjan fyrirliða Manchester United liðsins heldur betur heyra það í viðtali við enska blaðið Daily Mirror.

Franski heimsmeistarinn Paul Pogba vill nú komast til Barcelona og á í opinberum deilum við knattspyrnustjórann Jose Mourinho. Manchester United segir ekki ætla að selja miðjumanninn öfluga.

Paul Ince kallar Pogba athyglissjúkan og segir leikmanninn vera í heimskum leik.

„Maður hefði nú haldið að eftir að Paul Pogba fór á HM þar sem hann var frábær, að hann myndi koma glaður til baka með heimsmeistaragullið um hálsinn og klár í nýtt tímabil,“ sagði Paul Ince við Daily Mirror og bætti við:

„Það er ekki svo. Hann er búin að vera algjör martröð eftir að hann kom til baka,“ sagði Ince.

„Leikmaður verður, burtséð frá því hvort hann sé ánægður eða óánægður að kunna að hegða sér,“ sagði Ince.





„Hann var fyrirliði United í fyrsta leik tímabilsins á móti Leicester þar sem hann spilaði frábærlega. Svo segir hann þetta í viðtali eftir leik. Ég get ekki séð þetta annað en að þarna sé maður sem vill fá athygli og eiga umræðuna,“ sagði Ince.

„Paul Pogba hefur of mikið að segja. Mourinho gerði hann að fyrirliða í síðustu viku sem er mikill heiður og heiður sem hann vanmetur greinilega. Ef Jose fyndist svona lítið til hans koma þá hefði hann ekki látið hann fá fyrirliðabandið,“ sagði Ince.

„Hann átti mjög góðan leik, spilaði eins og sannur fyrirliði, en enginn er að tala um það af því að það eru allir að einblína á skrípalætin hans utan vallar,“ sagði Paul Ince.

Paul Ince var í stóru hlutverki á miðju Manchester United þegar sigurganga félagsins hófst í byrjun tíunda áratugsins en hann vann níu titla með félaginu frá 1990 til 1995.

Manchester United keypti Paul Ince fyrir milljón pund haustið 1989 og liðið vann sinn fyrsta titil undir stjórn Alex Ferguson vorið eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×