Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fylkir - FH 1-1 │Vandræði FH halda áfram

Magnús Ellert Bjarnason á Floridanavellinum skrifar
Úr leik liðanna í kvöld.
Úr leik liðanna í kvöld. vísir/bára
Fylkir og FH skildu jöfn í Árbænum í Árbænum í dag, 1-1, í 17. umferð Pepsi-deildar karla.

 

Leikurinn var saga tveggja hálfleika. Gestirnir úr Hafnarfirði voru með öll völd á vellinum í fyrri hállfeik og leiddu verðskuldað í hálfleik, 1-0, eftir laglegt mark Cédric D’Ulivo. Hans fyrsta mark í treyju FH.

Leikmenn Fylkis og þjálfari þeirra, Helgi Sigurðsson, hafa greinilega rætt málin vel í hálfleik, en liðið mætti af miklum krafti til leiks í síðari hálfleik og var allt annað að sjá til leikmanna þeirra.

Uppskáru þeir jöfnunarmark á 47. mínútu eftir frábæra sókn. Ólafur Ingi Skúlason splundraði vörn FH með glæsilegri stungusendingu á Ragnar Braga sem var óeigingjarn og renndi boltanum til hliðar á Valdimar Þór, sem gat ekki annað en skorað fyrir opnu marki.

 

Bæði lið reyndu að sækja stigin þrjú en varð ekki árangur sem erfiði. Fylkir átti nokkrar álitlegar sóknir sem þeir höfðu getað farið betur með. Þá varði Aron Snær, markmaður Fylkis, stórskostlega frá Steven Lennon á 78. mínútu leiksins.

Aron hefur verið gagnrýndur í sumar fyrir spilamennsku sína en þessi markvarsla var á heimsmælikvarða.

Niðurstaðan varð því 1-1 jafntefli í leik þar sem bæði lið þurftu nauðsynlega á sigri að halda. FH til að gefa ekki eftir í baráttunni um evrópusæti og Fylkir til að safna fleiri stigum með því markmiði að tryggja sæti sitt í deild þeirra bestu.

Stigið gerir það þó að verkum að Fylkir hoppar upp um eitt sæti, upp í það 10 með 16 stig, allavega þangað til að Fjölnir keppir á morgun. FH er hins vegar enn í 5. sæti, og hefur misst KR, sem er í 4. sæti þrem stigum frá sér.

FH-ingar fagna marki Cedric í kvöld.vísir/bára
Af hverju varð jafntefli niðurstaðan?

Líkt og kom fram að ofan var leikurinn saga tveggja hálfleika, en segja má að FH hafi átt fyrri hálfleikinn og Fylkir þann seinni. Jafntefli var því sennilega sanngjörn niðurstaða. Bæði lið höfðu getað stolið sigrinum í lokin svo varð ekki.

Hverjir stóðu uppúr?

Það verður að nefna markmann Fylkis, Aron Snæ, í þessum dálki. Markvarsla hans, þegar hann varði skalla Steve Lennon, var einfaldlega frábær og í senn gríðarlega mikilvæg. Þá var hann treystur í öllum sínum aðgerðum. Jafnfrant var Valdimar Þór ógnandi í síðari hálfleik og Ólafur Ingi traustur sem fyrr.

Í liði FH má helst nefna markaskorarann Cédric D’Ulivo. Fyrir utan markið var hann flottur í hægri bakverðinum. Þá leysti hann vel hlutverk hafsentar eftir að hann var færður þar eftir meiðsli Guðmundar Kristjánssonar.

Hvað gekk illa?

Báðum liðum gekk illa að binda hnútinn á sóknir sínar og skora sigurmarkið mikilvæga. Sóknarleikur Fylkis var nánast ekki til staðar í fyrri hálfleik og það má sama má segja um sóknarleik FH á löngum köflum í þeim síðari.

Hvað gerist næst?

Sú skemmtilega staða er komin upp að bæði lið halda næst suður með sjó og mæta þar botnliði Keflavíkur. Er það vegna þess að leik Keflavíkur og FH hafði verið frestað vegna evrópuleikja FH.

Ólafur gefur skipanir til sinna manna í kvöld.vísir/bára
Ólafur Kristjánsson: Þurfum að sjá hverjir eru með pung og hverjir ekki

Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, var að vonum svekktur að liði hans hafi ekki tekist að landa stigunum þrjú í Árbæ í dag gegn Fylki. Leikurinn fór 1-1 og varð FH þar með að mikilvægum stigum í baráttunni um evrópusæti.

 

„Það eru vonbrigði að vinna ekki þennan leik. Sérstaklega miðað við það hvernig fyrri hálfleikurinn spilaðist. Þá notuðum við breiddina vel og vorum að komast aftur fyrir varnarmenn þeirra og skapa færi. Við skorum flott mark og litum vel út."

„Síðan fáum við þessa gusu í andlitið strax í upphafi síðari hálfleiks þegar þeir skora jöfnunarmarkið. Þar vorum við einfaldlega sofandi á verðinum. Við vissum fyrir leik að Fylkir eru með fljótan framherja í Alberti Brynjari og að möguleikar þeirra lægju í því að stinga boltanum aftur fyrir vörn okkar, en þrátt fyrir það gerum við þessi mistök og vorum steinsofandi. ”

 

Ólafur lýsti því á skemmtilegan hátt hver staða FH er þessar vikurnar. Lið FH sé í raun eins og einstaklingur með kvef.

 

„Við sköpum færi í síðari hálfleik, meðal annars þegar að markmaður Fylkis ver frábærlega frá Lennon. Ég lít svolítið á þetta þannig að þegar þú ert með kvef hóstarðu, ert með nefrennsli og ert illt í hálsinum, og það er það sem við erum að eiga við núna.

„Við eigum erfitt með að skora, lekum mörkum, og þá er bara erfitt að ná í úrslit. Þetta er búinn að vera langur kafli hjá okkur þar sem þetta hefur verið svona, en það er ekkert annað í stöðunni núna en að sjá hverjir eru með pung og hverjir ekki."

 

Leikurinn í dag var í raun saga tveggja hálfleika. FH voru mun betri í fyrri hálfleik en spilamennska þeirra hrundi í þeim síðari. Hvað telur Ólafur vera orsök þess.

 

„Það er rosalega erfitt að útskýra það, en það eru örfá atriði sem ég vil helst tala um. Í fyrri hálfleik vorum við mjög góðir að fara í pressu eftir að við töpum boltanum og vinnum boltann aftur. En í seinni hálfleik erum við að vinna aftur á bak og gefum fylkismönnum tíma og frið til þess að spila boltanum sín á milli. Við nýtum einnig breiddina illa í seinni hálfleik og þegar við fengum færi nýttum við þau illa."

 

Telur Ólafur að evrópusætið sé ennþá raunhæfur möguleiki?

 

„Það er bara áfram gakk. Við þurfum fyrst að vinna fótboltaleiki áður en að við förum að tala um evrópusæti. Markmiðið núna er að reyna að enda í 4. sætinu. Auðvitað erum við að gefa KR gjöf með því að vinna ekki þennan leik, en við getum ekki verið að kvarta. Það er bara næsti leikur, “ sagði Ólafur að lokum.

Ólafur Ingi í kvöld.vísir/bára
Fyrirliði Fylkis, Ólafur Ingi Skúlason, átti góðan leik á miðjunni í dag. Var hann sammála blaðamanni að þetta hafi verið leikur tveggja hálfleika.

Fylkir hafi lítið sem ekkert getað í fyrri hálfleik en þeir hafi bitið frá sér í þeim síðari.

„Við vorum ekki nógu góðir í fyrri hálfleik. Mér fannst við vera seinir í okkar aðgerðum og það leit út eins og við vorum með handbremsuna á. Við vorum einfaldlega ragir."

„Við töluðum um það í hálfleik að sleppa handbremsunni og keyra á þá. Við höfðum engu að tapa, erum að daðra við fallsæti og að spila á heimavelli á móti FH liði sem hefur ekki verið að spila vel.” sagði Ólafur

Hvernig lýst Ólafi á möguleika Fylkis. Getur liðið haldið sér í deild þeirra bestu?

„Möguleikar okkar eru góðir. Það er vissulega ástæða fyrir því að við erum í fallbaráttu. En við erum að vinna í okkar leik og höfum verið að bæta spilamennskuna síðustu vikur."

„Það býr mikið í þessu liði og ef við sleppum beislinu oftar og hættum að vera ragir í okkar aðgerðum getum við klárlega haldið okkur í deild þeirra bestu . “ sagði Ólafur Ingi að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira