Enski boltinn

Hazard ætlar að klára tímabilið með Chelsea

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Eden Hazard er ekki á förum frá Chelsea í bráð en hann staðfesti þetta í samtali við blaðamenn eftir 3-2 sigur Chelsea á Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Fyrr í sumar gaf Hazard í skyn að hann vildi fara frá Chelsea og var talið líklegt að Evrópumeistarar Real Madrid myndu leggja allt kapp í sölurnar við að ná Belganum frá Lundúnum.

Hafa enskir og spænskir fjölmiðlar skrifað um það á undanförnum dögum að Real Madrid sé enn að eltast við Hazard þar sem enn eru tólf dagar eftir af félagaskiptaglugganum á Spáni.

Hazard útilokar hins vegar að yfirgefa Chelsea þó hann sé ekki tilbúinn að ræða nýjan samning við félagið en hann á tvö ár eftir af núgildandi samningi sínum.

„Þið vitið hvað ég sagði eftir HM en ég er ánægður hér og vil ekki um það núna. Það hefur ýmislegt verið skrifað um mína framtíð, sumt er bull,“ segir Hazard.

„Eins og staðan er núna er ég ánægður. Ég á tvö ár eftir af samningi og við sjáum til hvað gerist en ég mun ekki yfirgefa Chelsea í sumar.“

„Félagaskiptaglugginn á Englandi er lokaður. Við getum selt en getum ekki keypt leikmenn. Það væri skrýtið af Chelsea að láta mig fara án þess að geta fengið leikmann í staðinn. Það sást gegn Arsenal að stuðningsmennirnir meta mig mikils. Mér líður vel hér og svo sjáum við til hvað gerist eftir eitt eða tvö ár,“ segir Hazard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×