Erlent

Japanar framleiða moskur á hjólum fyrir múslima á Ólympíuleikunum í Tókýó

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Framleiðandinn segir að á fimmta tug manna geti lagst á bæn á sama tíma.
Framleiðandinn segir að á fimmta tug manna geti lagst á bæn á sama tíma. Vísir/Youtube
Japanskir verkfræðingar hafa hannað færanlegar farandmoskur á hjólum sem verða nýttar til að gefa múslimum sín eigin bænarými þegar Ólympíuleikarnir í Tókýó fara fram eftir tvö ár.

Það tók fjögur ár að hanna og framleiða moskurnar.

Grunnurinn er 25 tonna trukkur sem hægt er að opna og láta breiða úr sér til að mynda 48 fermetra rými. Þar getur vel á fimmta tug manna lagst á bæn í einu.

Með þessu vilja skipuleggjendur Ólympíuleikanna leggja áherslu á hugtakið „omotenashi“ en það er sérstakt japanskt afbrigði af gestrisni sem nær aðeins lengra en svipuð hugtök gera á öðrum tungumálum. Skylt hugtak er „ichigo ichie“ eða „einn fundur, eitt skipti“ sem þýðir lauslega að taka skuli á móti öllum gestum eins og þeir séu að koma í fyrsta og eina sinn.

Farandmoskurnar eru hannaðar til að bregðast við vandamáli sem margir höfðu áhyggjur af í aðdraganda leikanna í Tókýó. Þannig er mál með vexti að þó að í Japan búi allt að 200 þúsund múslimar eru aðeins nokkrar, litlar moskur í höfuðborginni. Þegar fjöldi múslima kemur til að fylgjast með leikunum og keppa verður ekki nóg pláss fyrir þá alla til að biðjast fyrir á sama tíma eins og hefð gerir ráð fyrir.

Farandmoskurnar verða keyrðar á milli leikvanga eftir þörfum.

Trukkarnir eru útbúnir með vatnstönkum og hreinlætisaðstöðu þar sem múslimar þurfa að þrífa sig vel fyrir hverja bæn, fimm sinnum á dag.

Framleiðandinn segir að auk Ólympíuleikanna verði farandmoskurnar boðnar til láns og sölu við ýmis tækifæri um allan heim. Allir sem haldi stórviðburði, þar sem margir múslimar séu meðal gesta, geti nýtt sér tæknina. Einnig sé hægt að nota trukkana til að koma upp bænarýmum við flóttamannabúðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×