Tónlist

Einblínt á konur í listum á Extreme Chill

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Pan Thorarensen, tónlistarmaður og einn skipuleggjenda Extreme Chill-tónlistarhátíðarinnar.
Pan Thorarensen, tónlistarmaður og einn skipuleggjenda Extreme Chill-tónlistarhátíðarinnar. Mynd/Ómar Sverrisson
Tónlistarhátíðin Extreme Chill Festival fer fram í níunda sinn í Reykjavík dagana 6.-9.september 2018. Fjölmargir listamenn koma fram á hátíðinni sem haldin er á fjórum stöðum í Reykjavík.

Í ár verður einblínt á konur í listum, að því er fram kemur í tilkynningu frá aðstandendum hátíðarinnar. „Styrkja þarf kynjahlutfall á öllum sviðum listarinnar að mínu mati þannig að fyllsta jafnræðis sé gætt,“ segir Pan Thorarensen, tónlistarmaður og einn skipuleggjenda Extreme Chill.

Hátíðin verður haldin á fjórum mismunandi stöðum í miðborginni: Kaldalónssal Hörpu, Gamla Bíó, skemmtistaðnum Húrra og Fríkirkjunni í Reykjavík, ásamt nokkrum minni stöðum til viðbótar sem auglýstir verða síðar.

Í ár kemur mikill fjöldi listamanna fram á hátíðinni sem verður með enn stærra sniði en áður. Á meðal þeirra sem troða upp eru Jan Jelinek, Bára Gísladóttir, Banco De Gaia, Dj Flugvél og Geimskip, Marsen Jules, Ragnhild May, Astrid Sonne, Andrew Heath, Sillus og Mankan (Kippi Kaninus & Tom Manoury).

Í tilkynningu segir að hátíðin hafi vakið mikla athygli víða um heim og var t.d. valin ein af eftirtektaverðustu tónlistarhátíðum 2012 í breska dagblaðinu The Guardian, „sökum einstakrar tengingar tónlistar og náttúru.“

Passi á hátíðina kostar 8900 krónur fyrir alla fjóra dagana og fer miðasala fram á midi.is.

Extreme Chill hefur verið haldin bæði í Berlín og víða um land. Hátíðin hefur einnig verið í samstarfi við ýmsar hátíðir bæði hérlendis og erlendis og er nú partur af nýju verkefni sem kallast Up node Network. Um er að ræða norrænt samstarf á milli allra helstu raftónlistarhátíða Norðurlanda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×