Erlent

Börn sprautuð með gölluðu bóluefni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Óttast er að börn kunni að veikjast eftir að hafa verið bólusett með efninu.
Óttast er að börn kunni að veikjast eftir að hafa verið bólusett með efninu. Vísir/getty
Kínversk stjórnvöld hafa farið fram á rannsókn á bóluefni við hundaæði eftir að í ljós kom að framleiðandi efnisins hafði falsað gögn um framleiðsluna. Málið hefur vakið mikla reiði í Kína en framleiðsla efnisins hefur nú verið stöðvuð og unnið er að því að innkalla alla selda skammta.

Ekki hafa enn borist neinar fregnir af skaðsemi bóluefnisins en í samtali við þarlenda fjölmiðla hafa kínverskir ráðamenn lýst mikilli óáængju með blekkingarleik fyrirtækisins. Þeir heita því að stjórnarmenn þess verði sóttir til saka og dæmdir til þyngstu refsingar.

Hundaæðislyfið er niðurgreitt af þarlendum stjórnvöldum og er öllum nýbökuðum foreldrum gert að bólusetja börn sín með efninu. Ekki er vitað hversu mörg börn voru sprautuð með hinu gallaða efni en ekkert barn er þó talið hafa veikst vegna þess.

Þá kom einnig í ljós á dögunum að annað bóluefni fyrirtækisins, sem framleitt var í fyrra, uppfyllti ekki staðla kínverska matar- og lyfjaeftirlitsins. Alls höfðu um 250 þúsund skammtar af lyfinu verið seldir áður en upp komst um málið.

Fyrirtækinu hefur verið gert að greiða sekt sem nemur 3,4 milljónu yuan, eða rúmlega 50 milljónum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×