Handbolti

Íslenski landsliðsmarkvörðurinn síðasta púslið í lið HSV Hamburg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Rafn Eðvarðsson í læknisskoðuninni hjá HSV Hamburg.
Aron Rafn Eðvarðsson í læknisskoðuninni hjá HSV Hamburg. Mynd/HSV Hamburg
Íslenski landsliðsmarkvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson mun spila með þýska b-deildarliðinu Handball Sport Verein Hamburg á komandi tímabili en HSV staðfestir þetta á heimasíðu sinni.

Það hefur tekið smá tíma að ganga frá lausum endum en Aron Rafn hafði talað um það sjálfur að allt liti út fyrir að hann færi til þýska liðsins.





Aron Rafn fór loksins í læknisskoðun hjá félaginu og nú er allt klárt eftir að hann stóðst hana.

Aron Rafn átti flott tímabil með ÍBV og hjálpaði liðinu að vinna þrefalt, það er að vera Íslands- bikar- og deildarmeistari. Liðið fór líka í undanúrslitin í Evrópukeppninni.

Aron Rafn þekkir vel til í þýsku b-deildinni því hann spilaði á sínum tíma með liði SG BBM Bietigheim.

„Aron var okkar fyrsti kostur og við erum mjög ánægðir með að hafa sannfært hann um að við og Hamburg væru rétti staðurinn fyrir hann. Hann hefur mikla reynslu og nú erum við tilbúnir í b-deildina,“ sagði Torsten Jansen, þjálfari HSV Hamburg við heimasíðu félagsins.

HSV Hamburg liðið er á hraðferð upp deildirnar eftir að hafa orðið gjaldþrota árið 2016. Þá var liðið dæmt niður í þýsku C-deildina.

HSV Hamburg komst upp úr c-deildina í vor og hefur nú sett stefnuna á það að spila aftur í þýsku bundesligunni á ný.

Aron Rafn verður númer 28 í markinu hjá HSV Hamburg í vetur. Á heimasíðu HSV Hamburg segir að Aron hafi verið síðasta púslið og að nú sé leikmannahópurinn klár fyrir tímabilið 2018-19.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×