Erlent

Nancy Sinatra hin eldri fallin frá

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Mæðgurnar Nancy og Nancy voru nánar alla tíð
Mæðgurnar Nancy og Nancy voru nánar alla tíð Vísir/Getty
Nancy Sinatra, fyrsta eiginkona Franks Sinatra og alnafna dóttur þeirra, er látin. Hún náði 101 árs aldri.

Nancy Sinatra Jr., sem er sennilega þekktust fyrir lagið „These boots are made for walking“, greindi frá andláti móður sinnar á samfélagsmiðlinum Twitter.

Nancy hin eldri fæddist 1917 og kynntist Frank á sumarleyfisstað í New Jersey þegar hún var aðeins sautján ára gömul. Þau gengu í hnapphelduna tveimur árum síðar en Frank var henni ótrúr nánast frá upphafi.

Hún sótti um skilnað árið 1950 á þeim grundvelli að Frank væri aldrei heima um helgar og stundaði framhjáhald eins og rófulaus hundur um allan bæ. Hann átti eftir að kvænast í þrjú skipti til viðbótar.

Þrátt fyrir það héldu þau vinskapinn þar til Frank andaðist árið 1998. Öll þrjú börn Franks Sinatra, sem vitað er um, átti hann með Nancy.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×