Körfubolti

Jabari Parker snýr aftur heim til Chicago

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Jabari Parker
Jabari Parker vísir/getty
Jabari Parker er genginn til liðs við Chicago Bulls í NBA körfuboltanum en þessi 23 ára gamli framherji gerir tveggja ára samning við félagið. Parker er fæddur og uppalinn í Chicago og sló fyrst í gegn með Simeon Career skólanum frá Chicago þegar hann var í framhaldsskóla.

Þaðan hélt Parker í Duke háskólann þar sem hann lék aðeins eitt ár í háskólaboltanum áður en hann var valinn annar í nýliðavalinu árið 2014 af Milwaukee Bucks.

Ferill Parker hefur ekki náð þeim hæðum sem búist var við enn sem komið er og hafa meiðsli sett strik í reikninginn hjá þessum hæfileikaríka körfuboltamanni. Hann byrjaði ekki einn leik á síðustu leiktíð eftir að hafa snúið aftur á völlinn í febrúar, þá eftir tæplega árs fjarveru vegna meiðsla í kjölfar tveggja krossbandaslita.

Stuðningsmenn Bulls líta björtum augum á framtíðina í kjölfar komu Parker en liðið hefur á að skipa afar ungu og efnilegu liði þar sem þeir geta nú stillt upp heilu byrjunarliði sem inniheldur eingöngu leikmenn sem hafa verið valdir snemma í nýliðavalinu á undanförnum fjórum árum.

Kris Dunn (valinn númer 5 árið 2016), Zach Lavine (valinn númer 13 árið 2014), Jabari Parker (valinn númer 2 árið 2014), Lauri Markkanen (valinn númer 7 árið 2017) og Wendell Carter Jr. (valinn númer 7 árið 2018).





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×