Körfubolti

Haukar semja við Slóvena

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Haukar safna liði.
Haukar safna liði. Vísir/Bára
Slóvenski bakvörðurinn Matic Macek mun leika með Haukum í Dominos deild karla á komandi leiktíð en hann hefur gert eins árs samning við körfuknattleiksdeild Hauka. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafnafjarðarliðinu.

Macek er 188 sentimetrar á hæð og á tuttugasta og fjórða aldursári. Hann lék síðast í úrvalsdeildinni í heimalandi sínu þar sem hann skilaði sjö stigum að meðaltali í leik.

Ljóst er að erlendir leikmenn verða áberandi í Dominos deildinni á komandi leiktíð þar sem lið hafa verið dugleg að semja við evrópska leikmenn að undanförnu í kjölfarið á reglubreytingum KKÍ sem heimila félögum að semja við eins marga erlenda leikmenn og þeim sýnist, svo lengi sem þeir hafa evrópskt ríkisfang.

Í tilkynningu Hauka kemur einnig fram að leit að bandarískum leikmanni standi nú yfir. Þar segir jafnframt að liðið þarfnist leikmanns inn í teig til að koma í stað þeirra Finns Atla Magnússonar og Breka Gylfasonar. Vonast Haukar til að ganga frá samningum við Bandaríkjamann fyrir vikulok.

Keppni í Dominos deildinni hefst þann 4.október næstkomandi og hefja Haukar leik gegn Val á útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×