Enski boltinn

Liverpool að gera Alisson að dýrasta markverði sögunnar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alisson á Anfield?
Alisson á Anfield? Vísir/Getty
Ítalska félagið Roma er búið að samþykkja 66 milljóna punda (9,3 milljarða íslenskra króna) tilboð Liverpool í brasilíska markvörðinn. Paul Joyce, blaðamaður The Times, greinir frá þessu á Twitter-síðu sinni.

Liverpool hefur verið á eftir Alisson í sumar en það vill styrkja markvarðastöðuna hjá sér. Loris Karius virðist ekki eiga afturkvæmt í markið hjá Klopp eftir mistökin sem að hann gerði í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Verði félagaskiptin að veruleika verður Alisson dýrasti markvörður sögunnar en enginn hefur komist yfir Gianluigi Buffon sem var keyptur frá Parma til Juventus fyrir 33 milljónir punda árið 2001.

Alisson verður 17. dýrasti leikmaður sögunnar á eftir Kevin De Bruyne en Liverpool verður þá á innan við ári búið að fjárfesta í dýrasta varnarmanni sögunnar (Virgil van Dijk) og dýrasta markverði sögunnar.

Brasilíski markvörðurinn verður 26 ára gamall í byrjun október en hann hefur varið mark Roma undanfarin tvö ár en hann hóf ferilinn með Internacional í heimalandinu. Hann er fastamaður í brasilíska landsliðinu og var með því á HM í Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×