Viðskipti innlent

Ísland undanþegið verndartollum ESB

Birgir Olgeirsson skrifar
EES-samningurinn mun því tryggja íslenskum álframleiðendum áframhaldandi aðgang að markaðnum, segir utanríkisráðherra.
EES-samningurinn mun því tryggja íslenskum álframleiðendum áframhaldandi aðgang að markaðnum, segir utanríkisráðherra. Vísir/EPA
EFTA-ríkin innan EES, þar með talið Ísland, eru undanþegin tímabundnum verndartollum ESB á stálvörum sem tilkynnt var um í dag. Undanþágan, sem veitt er á grundvelli EES-samningsins, skapar fordæmi og mun einnig gilda um mögulega verndartolla á innflutning á áli til ESB sem nú eru til skoðunar.

„Slíkir verndartollar myndu hafa mikil áhrif hér á landi þar sem ESB er okkar helsti útflutningsmarkaður fyrir ál. EES-samningurinn mun því tryggja íslenskum álframleiðendum áframhaldandi aðgang að markaðnum,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.

Í tilkynningu ESB kemur fram að 25% verndartollur verði lagður á tuttugu og þrjár stálvörur frá 19. júlí nk. Um er að ræða tímabundar aðgerðir sem eru m.a. svar við ákvörðun bandarískra stjórnvalda fyrr á árinu um að leggja tolla á ál og stál.

Cecilia Malmström, viðskiptamálastjóri ESB, segir að verndartollar Bandaríkjanna á stál geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir stáliðnað ESB-ríkjanna og starfsmenn í stáliðnaði. Því sé enginn annar möguleiki í stöðunni en að leggja á verndartolla til að vernda innri markaði fyrir holskeflu af innflutningi á stáli. Hún leggur hins vegar áherslu á að aðgerðirnar tryggi að innri markaður ESB haldist opinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×