Innlent

Hvalurinn reyndist blendingur langreyðar og steypireyðar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kristján Loftsson er forstjóri Hvals. Hann sagðist fullviss um að hvalurinn væri blendingur sem nú hefur fengist staðfest.
Kristján Loftsson er forstjóri Hvals. Hann sagðist fullviss um að hvalurinn væri blendingur sem nú hefur fengist staðfest. Vísir/Getty
Hvalurinn sem dreginn var á land af skipum Hvals hf. í hvalstöðinni í Hvalfirði þann 7. júlí var blendingur langreyðar og steypireyðar. Þetta staðfesta niðurstöður erfðafræðirannsókna. Faðirinn var langreyður og móðirin steypireyður.

Talið var að hvalurinn gæti mögulega verið steypireyður sem bannað er að veiða. Hefur verið fjallað um málið í erlendum fjölmiðlum þar sem sérfræðingar hafa talið víst að um steypireyð var að ræða. Kölluðu hvalasérfræðingar eftir því að hvalveiðifloti Hvals hf. yrði kyrrsettur uns skorið yrði úr því með erfðavísindarannsókn að um blending væri að ræða.

Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, sagðist alltaf sannfærður um að hvalurinn væri blendingur. Stærðamunur er á tegundunum tveimur sem um ræðir en steypireyður er stærsta dýr heims. Þyngdarmunur dýranna nemur um 60-80 tonnum. Efri hluti þeirra, sá er kemur upp úr sjónum, er þó áþekkur í sýn.

Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur hjá Hafró, sagði við fréttastofu þann 13. júlí að rannsóknir á borð við þessar færu yfirleitt fram á haustin. Í þessu tilfelli hafi verið óskað eftir því að semja við rannsóknarstofu um að skoða sýnið sem fyrst. Þeirri rannsókn er nú lokið og niðurstaðan að um blending hafi verið að ræða.

Tilkynningin frá Hafró

Þann 7. júlí sl. var hvalur dreginn á land í hvalstöðinni í Hvalfirði sem bar einkenni bæði langreyðar og steypireyðar. Starfsmaður Hafrannsóknastofnunar sem var við mælingar og sýnatöku í hvalstöðinni tilkynnti strax um atvikið og gerði viðeigandi athuganir og mælingar auk sýnatöku.

Bráðabirgðaniðurstaða Hafrannsóknastofnunar var að um væri að ræða blending en að staðfestingu yrði leitað með erfðafræðilegum aðferðum í vertíðarlok líkt og gert hefur verið í fyrri tilfellum þegar meintir blendingar hafa veiðst. Í kjölfar mikillar umræðu um það að umræddur hvalur væri hugsanlega steypireyður var ákveðið að flýta eins og kostur væri greiningu erfðasýna til að fá niðurstöðu eins fljótt og mögulegt væri. Þeirri vinnu er nú lokið.

Niðurstöður erfðafræðirannsóknanna staðfesta að umræddur hvalur sem veiddur var þann 7. júlí síðastliðinn var blendingur langreyðar og steypireyðar og að móðirin var steypireyður en faðirinn langreyður.

Nánar um rannsóknina

Erfðagreining fór fram á rannsóknastofu MATÍS en úrvinnsla gagnanna var unnin af erfðasérfræðingi Hafrannsóknastofnunar í samvinnu við sérfræðing MATÍS. Umrætt sýni var greint ásamt öðrum sýnum úr blendingum sem safnað hefur verið úr atvinnuveiðum frá árinu 1983, alls 5 einstaklingum. Þá voru greind erfðasýni úr 24 langreyðum sem safnað var í ár auk þeirra 154 sem veiddust árið 2015. Jafnframt voru greind eldri sýni úr steypireyði (23 einstaklingar) sem til eru í lífsýnasafni Hafrannsóknastofnunar.

Tvennskonar aðferðum var beitt við greiningu sýna. Annars vegar voru raðgreindir hvatberar (mtDNA) auk þess sem 15 erfðamörk voru greindmeð svokallaðri mikrósatelíta (nDNA) aðferð. Erfðaefni hvatberanna erfist beint frá móður og staðfestir greiningin að móðir umrædds hvals var steypireyður. Þar sem hvatbera greiningin staðfestir ekki tegund föðursins var frekari greining gerð með umræddri mikrósatelíta aðferð.

Meðfylgjandi mynd sýnir niðurstöður þeirrar greiningar og unnið var í greiningarforritinu STRUCTURE.

Á myndinni má sjá niðurstöður fyrir alla 206 hvalina sem rannsakaðir voru. Einleitu rauðu súlurnar sýna langreyðar en grænu heilu súlurnar sýna eldri sýni úr steypireyði. Þau 5 sýni sem eru bæði rauð og græn eru úr hvölum sem greinast sem blendingar. Hluti þeirra hefur áður verið greindur sem blendingar og niðurstöður birtar í ritrýndum vísindatímaritum.

Umræddur hvalur sem veiddist 7. júlí er merktur sem Hvalur 22 á myndinni. Niðurstöður greininganna staðfesta að allir hvalirnir sem greindir hafaverið sem blendingar af útlitseinkennum eru blendingar af fyrstu kynslóð þar sem annað foreldrið var hrein steypireyður og hitt foreldrið langreyður.

Niðurstöðurnar erfðafræðirannsóknanna staðfesta sem fyrr segir að umræddur hvalur sem veiddur var þann 7. júlí síðastliðinn var blendingur langreyðar og steypireyðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×