Enski boltinn

Klopp telur sig hafa keypt einn besta markvörð heims

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Fagnaðarfundir
Fagnaðarfundir vísir/getty
Liverpool gerði brasilíska landsliðsmarkvörðinn Alisson Becker að dýrasta markverði sögunnar í gær þegar liðið gekk frá kaupum á kappanum frá Roma fyrir 67 milljónir punda.

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, kveðst sannfærður um að hann muni reynast Liverpool vel og segir Alisson vera einn besta markvörð heims.

„Þegar tækifærið á að kaupa einn af bestu markvörðum heims kom upp þurfti ég ekki að hugsa mig lengi um, það eina sem ég þurfti að gera var að eiga gott spjall við eigendurna. Þeir voru líka spenntir svo við náðum að ganga frá þessu,“ segir Klopp.

Eins og áður segir er Alisson dýrasti markvörður sögunnar og sá langdýrasti í enska boltanum en hann bætir met landa síns, Ederson, sem var keyptur til Man City á 35 milljónir punda síðasta sumar.

„Við getum ekkert gert í því og hann getur ekkert gert í því hvað hann kostar. Svona er bara markaðurinn og við munum ekki hugsa mikið um það,“ segir Klopp sem kveðst hafa fylgst vel með Alisson á undanförnum árum.

„Hann talar furðugóða ensku og er góður karakter. Hann hefur sankað að sér mikilli reynslu á undanförnum árum; í Evrópu með Roma auk þess að spila fyrir brasilíska landsliðið þar sem hann stóð sig mjög vel á HM,“ segir Klopp.

„Þetta eru góð kaup en hann þarf að aðlagast ensku úrvalsdeildinni. Svoleiðis er það bara. Deildin er öðruvísi, dómararnir eru öðruvísi og það er öðruvísi að vera markvörður í ensku úrvalsdeildinni en öðrum deildum,“ sagði Klopp jafnframt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×