Erlent

Hryðjuverkaklerkur í lífstíðarfangelsi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Aman Aburrahman er sagður leiðtogi stuðningsmanna Íslamska ríkisins í Indónesíu.
Aman Aburrahman er sagður leiðtogi stuðningsmanna Íslamska ríkisins í Indónesíu. Vísir/EPA
Indónesískur klerkur var í morgun dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að skipuleggja hryðjuverkaárás í Jakarta árið 2016.

Aman Aburrahman var sakfelldur fyrir að skipuleggja sjálfsmorðssprengjuárás sem framin var á útibú kaffihúsakeðjunnar Starbucks í borginni.

Klerkurinn, sem lýst hefur stuðningi við hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið, er jafnframt sagður vera trúarleiðtogi indónesísks sértrúarsafnaðar.

Hann hefur stýrt söfnuði sínum úr fangaklefa en hann hefur setið inni frá árinu 2010. Hann er sagður ekki hafa átt í vandræðum með að koma skilaboðum til fylgismanna sinna utan veggja fangelsisins. Því hafi það verið hægðarleikur fyrir klerkinn að skipa fyrir um sjálfsmorðsárásina árið 2016.

Aburrahman neitaði ætíð sök í málinu. Hann sagði að hann hafi aðeins hvatt stuðningsmenn sína til að berjast við hlið íslamska ríkisins í Sýrlandi, en ekki til að fremja hryðjuverk í heimalandinu.

Alls létust fjórir óbreyttir borgarar og fjórir hryðjuverkamenn í árásunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×