Fótbolti

Heimir: Þeir eru heimsklassa skyndisóknarlið

Einar Sigurvinsson skrifar
Við spiluðum fyrri hálfleikinn mjög vel. Gáfum þeim engin færi á okkur. Það var leikplanið, að halda núllinu eins lengi og hægt var,“ sagði Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Íslands við Arnar Björnsson í dag.

„Við vissum að þeir þyrftu að vinna og að þeir myndu opna sig þegar liði á leikinn. Því miður þá fáum við þetta mark eftir skyndisókn og þá breytist leikmyndin. Þeir eru heimsklassa skyndisóknarlið,“ bætti Heimir við.

Á 83. mínútu leiksins brenndi Gylfi Þór Sigurðsson af vítaspyrnu og eðlilega telur Heimir að mark þar hefði haft mikil áhrif á leikinn.

„Ég er nokkuð viss um það. Ef við hefðum skorað úr þessu víti, þá hefðu lokamínúturnar verið spennandi og skemmtilegar fyrir okkur.“

Ragnar Sigurðsson kenndi sér ekki meins í morgun eftir höfuðhögg sem hann hlaut í leiknum í gær, hann ætti því að vera klár fyrir leikinn gegn Króatíu á þriðjudaginn. Auk þess heldur Heimir í vonina að Jóhann Berg geti tekið þátt í leiknum.

„Raggi vaknaði ferskur í morgun og svaf vel, þannig að þetta er ekki heilahristingur. Við verðum að bíða og sjá [með Jóhann Berg]. Hann er að byrja að æfa af meiri krafti.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×