Handbolti

Guðjón Valur: Brást liðinu í síðasta leik

Ástrós Ýr Eggertsdóttir í Laugardalshöll skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Vísir/EPA
Fyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur í liði Íslands sem bar sigurorð af Litháum 34-31 í Laugardalshöll í kvöld og tryggði sér með sigrinum sæti á HM í Þýskalandi og Danmörku á næsta ári.

„Alveg ofsalega góð,“ svaraði Guðjón aðspurður hvernig tilfinningin væri í leikslok. „Mikill léttir eftir erfitt verkefni og erfiðan leik og mikla pressu. Rosalega gott að geta landað þessu.“

Þegar Ísland dróst á móti Litháen í umspilinu héldu margir að leiðin á HM yrði auðveld en svo var heldur betur ekki og þurftu strákarnir að hafa fyrir sigrinum í kvöld.

„Við vissum það alveg að þetta er hörkulið. Við hefðum getað gert þó nokkra hluti betur í dag en við gerðum en það er samt á stórum augnablikum í leiknum þá mættum við og það er það sem gerði útslagið.“

Guðjón Valur átti enn einn stórleikinn í kvöld, frammistaða sem maður er í raun farinn að búast við af fyrirliðanum eftir öll þessi ár. Hann var hins vegar ekki í sínu besta formi í fyrri leiknum ytra og þurfti því að gera betur í dag.

„Mér fannst ég skulda liðinu. Ég brást liðinu í síðasta leik og það vill maður náttúrulega aldrei. Allt í lagi leikur í dag en ég er ánægður fyrir hönd liðsins. Mér fannst það spila, sérstaklega sóknarlega, mjög vel.“

„Þetta er það sem gefur lífinu gildi sem handboltamaður. Þetta eru algjör forréttindi og það er það sem ég segi við þessa ungu stráka. Manni líður hvergi betur en hérna á fjölum Laugardalsvallar,“ sagði fyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×