Handbolti

Guðmundur Þórður á leið á sitt 22. stórmót

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson er aftur tekinn við íslenska landsliðinu, 17 árum eftir að hann tók fyrst við því.
Guðmundur Guðmundsson er aftur tekinn við íslenska landsliðinu, 17 árum eftir að hann tók fyrst við því. Vísir/Eyþór
Sigur Íslands á Litháen, 34-31, í seinni leik liðanna um sæti á HM 2019 þýðir að landsliðsþjálfarinn Guðmundur Guðmundsson er á leið á sitt 22. stórmót á ferlinum í janúar á næsta ári.

Fyrsta stórmótið sem Guðmundur fór á var B-keppnin í Hollandi 1983 en þá var hann 22 ára gamall leikmaður Íslandsmeistara Víkings. Guðmundur fór á fimm stórmót til viðbótar sem leikmaður íslenska landsliðsins og var m.a. í liðinu sem vann B-keppnina í Frakklandi 1989.

Guðmundur tók við íslenska landsliðinu 2001 og ári seinna stýrði hann því til 4. sætis á EM í Svíþjóð. Guðmundur stýrði Íslandi á þremur stórmótum til viðbótar áður en hann hætti eftir Ólympíuleikana í Aþenu 2004.

Guðmundur fór á HM 2007 sem aðstoðarþjálfari Alfreðs Gíslasonar. Hann tók svo nokkuð óvænt við íslenska liðinu á ný vorið 2008. Þá hófst mesta blómaskeið í sögu þess. Ísland vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og bronsverðlauna á EM í Austurríki tveimur árum síðar. Guðmundur stýrði Íslandi einnig á HM 2011, EM 2012 og Ólympíuleikunum 2012.

Árið 2014 tók Guðmundur við danska landsliðinu af Ulrik Wilbæk. Hann stýrði Dönum á tveimur heimsmeistaramótum, einu Evrópumóti og svo á Ólympíuleikunum 2016 í Ríó þar sem danska liðið stóð uppi sem sigurvegari.

Guðmundur hætti með danska liðið eftir HM 2017 og tók því næst við Barein. Hann stýrði Bareinum á Asíuleikunum 2018 þar sem liðið vann til silfurverðlauna og tryggði sér í leiðinni sæti á HM 2019. Guðmundur afrekaði það að koma tveimur liðum á HM á næsta ári sem fer fram í Danmörku og Þýskalandi. Dregið verður í riðla í Kaupmannahöfn 25. júní næstkomandi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×