Innlent

Stoltasti pabbi í heimi brast í grát þegar Hannes varði vítið frá Messi

Kolbeinn Tumi Daðason í Kabardinka skrifar
Halldór Þórarinsson gat ekki haldið aftur af tárunum í leikslok á Spartak-leikvanginum á laugardag.
Halldór Þórarinsson gat ekki haldið aftur af tárunum í leikslok á Spartak-leikvanginum á laugardag. Vísir/Vilhelm
Þegar Hannes Þór Halldórsson varði vítaspyrnu argentínska snillingsins Lionel Messi brast 56 ára karlmaður í grát í stuðningshópi Íslands. Halldór Þórarinsson, matvælafræðingur og faðir Hannesar, hefur stutt son sinn í gegnum súrt og sætt. Hann var að sjálfsögðu mættur til Moskvu á laugardaginn.

„Ég er þannig að ég er alveg skítstressaður á leikdegi. Það versnar bara eftir því sem nær dregur og ég er alveg farinn meðan á leik stendur,“ segir Halldór. Annars sé hann nú rólyndis maður.

„Ég held það allavega,“ segir hann léttur.

Feðgarnir eftir 2-1 sigurinn á Englandi í Nice.Vísir/Vilhelm

Nálægt spyrnu Rooney í Nice

Hann segist í raun ekki geta lýst því hvar hann var á meðan á leiknum stóð.

„Ég veit ekki hvar ég var,“ segir Halldór.

Eftir 1-1 stöðu í hálfleik dæmdi pólski dómarinn umdeilda vítaspyrnu á Ísland.

Hvert einasta mannsbarn vissi hver myndi stíga á punktinn. Argentínski töframaðurinn Lionel Messi sem á bara eitt eftir á glæstum ferli. Að vinna HM.

„Ég hugsaði hann tekur þetta,“ segir Halldór.

Hann rifjar upp vítaspyrnuna sem Wayne Rooney skoraði úr í 2-1 sigri Íslands á Englendingum í Nice í sextán liða úrslitunum á EM 2016.

„Hann var svo nálægt því að verja frá Rooney á sínum tíma.“

Sturluð tölfræði

Segja má að vítaspyrnuvörslur séu ær og kýr Hannesar. Hann hefur spreytt sig á 24 samanlagt í deildarleikjum og landsleikjum. Aðeins 15 hafa farið inn. Ótrúleg tölfræði.

„Ég var alveg viss um að hann tæki þetta, sem var líka mjög gott því ég var búinn að spá 1-1.“

Úti um allan heim trylltist fólk af fögnuði. Davíð sigraði Golíat í enn eitt skiptið. Kvikmyndaleikstjóri frá Íslandi hafði betur gegn jafnbesta knattspyrnumanni heims.

„Ég fór nú bara að grenja þegar hann varði vítið. Ég fór alveg,“ segir Halldór. Skal engan undra. Hvernig bregst maður við þegar manns nánasti sigrar að því virðist heiminn? Spyr sá sem ekki veit.

Sjálfur sagði Hannes í viðtali við Vísi eftir leik að hann hefði fengið eina eftirminnilegustu stund sína upp í hendurnar.

Halldór að loknum miklum tilfinningarússíbana. Með honum er Baldur Kristjánsson, vinur Hannesar, sem var að sjálfsögðu klæddur í gallann frá A-Ö.Vísir/Vilhelm

Eltur á röndum á flandri

Halldór var nýlentur heima á Íslandi í gær þegar blaðamaður náði af honum tali. Ferðin til Moskvu var stutt en eftirminnileg. Hann hélt utan aðfaranótt laugardags.

„Ég var bara einn á flandri en var reyndar eltur af rússneskri sjónvarpsstöð allan tímann,“ segir Halldór. Sjónvarpsstöðin er að vinna þátt um þrjátíu áhorfendur hvaðan æva úr heiminum, þar á meðal Íslandi

Það var víst ég. Það var bara fínt. Það dreifði huganum,

segir Halldór og vísar til stressins á leikdegi. Raunar var sólarhringurinn svo til svefnlaus. Flogið utan að nóttu til, allt á fullu á leikdegi og svo lítið sofið nóttina eftir leik áður en haldið var aftur heim á klakann.

„Maður sefur bara seinna,“ segir Halldór.

Hannes Þór Halldórsson, þá markvörður Fram, var valinn í íslenska landsliðið í fyrsta skipti árið 2009.Fréttablaðið/Valgarður Gíslason

Furðulegt ferðalag

Saga Hannesar er einstök. Markvörður sem fáir ættu von á að yrði einhvern tímann talinn nógu góður til að spila fyrir Chelsea eða Manchester United. Eitthvað sem markvarðarþjálfari Íslands, Guðmundur Hreiðarsson, telur hann vel geta gert. 

Honum var hafnað af neðri deildarliði, gerði afdrifarík mistök þegar hann fékk tækifæri í marki Leiknis árið 2004 og sæti í 1. deild í húfi, spyrnugeta hans þótti ekki nógu góð. Svo tóku við skýr markmið, sem Hannes hefur oft talað um. Spila í efstu deild, spila fyrir landsliðið, fara í atvinnumennsku og þannig mætti halda áfram. 

Í dag spilar hann með Randers í Danmörku en ljóst er að markvarðarþjálfarar um heim allan þekkja nafnið hans eftir Argentínuleikinn, þekktu þeir það ekki fyrir.

Fastlega má búast við því að Randers fái formlegar fyrirspurnir um íslenska markvörðinn sem fyrir utan vítaspyrnuvörsluna átti frábæran dag í marki Íslands gegn hæfileikabúntunum frá Argentínu.

En hver er lykillinn að þessum árangri hjá Hannesi?

Hannes Þór á leið til föður síns eftir leikinn gegn Argentínu.Vísir/Vilhelm

Innilegt faðmlag í leikslok

„Ég myndi segja að hann er gríðarlega fókuseraður. Þegar hann setur sér markmið þá gerir hann allt sem þarf. Hann er líka maður aukaæfinganna, hann æfir og æfir. Ef það er eitthvað sem vantar þá æfir hann það. Það er þessi elja, dugnaður, einurð og fókus,“ segir Halldór sem fékk að knúsa strákinn í leikslok uppi í stúku.

„Hann kom til mín og við náðum aðeins að faðmast. Svo var ekkert meira en ég heyrði í honum í morgun,“ segir Halldór.

Hannes sé þakklátur augnablikum sem þessum. Meðan hann hafi áhuga á þessu sé þetta spurning um að hafa gaman, njóta.

Stundin sem enginn Íslendingur mun gleyma í náinni framtíð.vísir/Vilhelm

Sannfærður um áframhaldandi velgengni

Halldór er kominn heim og verður ekki á leikjunum gegn Nígeríu í Volgograd á föstudaginn og gegn Króatíu í Rostov við Don 26. júní. 

„Ég missi af næstu tveimur leikjum en næ restinni,“ segir Halldór sem spáði Íslandi upp úr riðlinum og raunar alla leið í úrslitaleikinn í janúar. Þá spáði hann einmitt 1-1 jafntefli gegn Argentínu. Ísland vinnur Nígeríu 2-0 og gerir aftur 1-1 jafntelfi við Króatíu, gangi spáin eftir. 

„Ég var úti allt Evrópumótið og upplifði ekki stemmninguna heima. Verður maður ekki að prófa það?“ spyr Halldór og stefnir á að horfa á Nígeríuleikinn í Hljómskálagarðinum þangað sem fólk mun vafalítið streyma. 

Það er því ljóst að Halldór verður mættur út til Nizhny Novgorod, vinni Ísland riðilinn, eða Kazan, hafni liðið í öðru sæti riðilsins. Annað virðist ekki inni í myndinni hjá harðasta stuðningsmanni Hannesar Þórs Halldórssonar.

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á FacebookTwitter og Instagram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×