Sport

Heimir segir stigið gegn Argentínu verðskuldað

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Heimir eftir að leikurinn gegn Argentínu var flautaður af.
Heimir eftir að leikurinn gegn Argentínu var flautaður af. Fréttablaðið/Eyþór
Heimir Hallgrímsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, var skiljanlega í skýjunum eftir æfingu liðsins í Kabardinka í gær. Lærisveinar Heimis gerðu sér lítið fyrir og nældu í stig gegn Argentínu, einu af bestu liðum heims, silfurliðinu frá HM 2014 með einn besta leikmann heims innanborðs, Lionel Messi, deginum áður í Moskvu.

„Fyrst og fremst fundum við fyrir stolti, bæði af strákunum og af því að fá að vera hluti af þessum hóp. Að fá að vinna með þessum hóp eru forréttindi og það að vera Íslendingur með íslenska landsliðið á HM eru forréttindi. Við þjálfarateymið höfum talað um það að sitja ekki einir um þetta,“ sagði Heimir hógvær og bætti við:

„Við erum með teymi í kringum okkur sem við viljum að njóti reynslunnar því vitum ekki hversu oft þetta gerist í framtíðinni. Við viljum að þessi reynsla skili sér inn í íslenska knattspyrnu og hjálpi okkur öllum við að styrkja undirstöðurnar og verða betri fótboltaþjóð.“

Sjá einnig: Strákarnir sendu markmanni Nígeríu baráttukveðju

Eftir flotta sóknartilburði í fyrri hálfleik lá íslenska liðið mikið til baka í seinni hálfleik og náði lítið að herja á mark Argentínu.



Undirbúningur landsliðsins skilaði sér meðal annars í varðri vítaspyrnu.Vísir/Getty
„Við lærum það af þessum leik að vernda boltann meira þegar við erum með hann, með því spörum við orku því það tekur meira á að verjast en að sækja. Við getum gert betur sóknarlega en það er kannski eðlilegt að falla til baka gegn jafn sterkum mótherja þegar staðan er jöfn seint í seinni hálfleik,“ sagði Heimir og hélt áfram:

„Við vissum fyrir leik að við þyrftum að verjast 60-70 prósent af leiknum, það var lítið sem kom okkur á óvart. Þegar þú ert að verjast svona mikið þá er þetta forgangurinn og þú þarft að vita að þú standir hann vel. Þegar við vorum með boltann náðum við að skapa góð færi en við áttum stigið fyllilega skilið.“

Við komuna til Kabardinka beið móttökunefnd strákanna og voru íbúar bæjarins búnir að mála íslenska fánann á lök. Það hlýjaði Heimi um hjartaræturnar.

„Þetta er þannig staður að okkur líður mjög vel hérna, þó að við séum bara búnir að vera hérna í viku þá er strax komin þessi góða tilfinning. Við vorum með augastað á því þegar við völdum þetta svæði, það er fallegt hérna en góð orka úr Svartahafinu og fjöllunum í kring þó að þetta sé lítill og sætur bær. Það var afar gaman að fá þessar móttökur. Við töluðum eftir leikinn um að fara aftur heim og maður finnur að það gleðjast allir við að vera að fara aftur hingað, það segir ýmislegt um staðinn.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×