Innlent

Varð vélarvana djúpt vestur af Vestfjörðum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Togarinn sést hér í togi á varðskipinu Þór en greiðlega gekk að setja skipið í tog.
Togarinn sést hér í togi á varðskipinu Þór en greiðlega gekk að setja skipið í tog. landhelgisgæslan
Varðskipið Þór er nú með ísfisktogarann Akurey AK-10 í togi á leið til hafnar í Reykjavík eftir að skipið varð vélarvana djúpt vestur af Vestfjörðum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni en stjórnstöð gæslunnar fékk beiðni um aðstoð frá skipstjóra togarans á sjöunda tímanum í morgun.

Varðskipið Þór var þá á Bíldudal og hélt strax af stað til móts við togarann. Um klukkan eitt var Þór kominn að Akurey og tók skamma stund að koma taug á milli skipanna.

Að því búnu hélt varðskipið áleiðis til Reykjavíkur með Akurey í togi og er gert ráð fyrir að skipin verði komin til hafnar um hádegisbil á morgun.

Akurey AK-10 er einn af ísfisktogurum HB Granda en það kom til heimahafnar á Akureyri fyrir tæpu ári síðan, eða þann 20. júní í fyrra. Er skipið systurskip Engeyjar RE og Viðeyjar RE.

Togarinn var sjósettur í Tyrklandi í september 2016 hjá Celiktrans-skipasmíðastöðinni í Istanbúl í Tyrklandi en skipið var þá nýsmíðað.



Fréttin hefur verið uppfærð.


Er gert ráð fyrir að skipin komi til hafnar á morgun.landhelgisgæslan



Fleiri fréttir

Sjá meira


×