Enski boltinn

Harry Kane gerði nýjan sex ára samning við Tottenham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane.
Harry Kane. Vísir/Getty
Harry Kane er ekki á förum frá Tottenham á næstunni því enski landsliðsfyrirliðinn er búinn að skrifa undir nýjan sex ára samning við enska úrvalsdeildarfélagið.

Kane hefur raðað inn mörkum fyrir félagið á síðustu tímabilum og fjölmiðlar hafa verið að orða hann við stærstu félög heims. Nú eru Tottenham menn búnir að slökkva á þeirri umræðu allri.

Harry Kane er 24 ára gamall og nýi samningurinn nær til ársins 2024 eða þangað til að hann verður þrítugur.





Kane skrifaði síðast undir nýjan samning í desember 2016 en sá átti að renna út 2022 og skila hinum hundrað þúsund pundum í vikulaun. Kane fær væntanlega góða launahækkun í nýja samningnum.

Kane skoraði 30 mörk í ensku úrvalsdeildinni í vetur en missti gullskóinn samt til Mo Salah hjá Liverpool. Hann náði því að skora 56 mörk fyrir Tottenham og enska landsliðið á almanaksárinu 2017.

Tottenham er með mjög ungt og spennandi lið sem er líklegt til afreka takist félaginu að halda kjarnanum saman. Þá er félagið að flytja á nýjan 62 þúsund manna völl og framtíðin er því björt.

Knattspyrnustjórinn Mauricio Pochettino samdi á dögunum til ársins 2023. Tottenham vinnur því markvisst af því þessa dagana að tryggja það að bestu menn liðsins spili áfram hjá félaginu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×