Innlent

Sólarferðir seljast vel í vonda veðrinu

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Sala á sólarlandaferðum hefur tekið kipp undanfarnar vikur samhliða slæmu veðri víða á landinu. Forstjórar ferðaskrifstofa segja algengt að ferðir séu bókaðar kvöldið fyrir brottför þegar spáð er roki og rigningu. Sólin skein reyndar víðast hvar á höfuðborgarsvæðinu í dag eftir vinda- og vætusama helgi víða um land. Ánægjan endist þó ekki lengi, en gul viðvörum veðurstofu er í gildi á Suður- og Vesturlandi á morgun og von á áframhaldandi roki og rigningu.

Frétt Vísis: Stormur, éljagangur og hálka í maí

Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Ferðaskrifstofu Íslands, sem rekur Úrval Útsýn, Plúsferðir og Sumarferðir segir ljóst að sífellt fleiri kjósi að flýja hreinlega land.

Maí sérstaklega góður í sölu ferða

„Maí er búinn að vera sérstaklega góður og veturinn líka. Ef veðrið heldur áfram að vera svona slæmt eiginlega bara allan ársins hring eigum við góðan möguleika á að vera þokkalega stór í sólarlandaferðum í ár,“ segir Þórunn.

Undir þetta tekur Tómas J. Gestsson, forstjóri Heimsferða, sem var sjálfur í sólarferð á Spáni þegar fréttastofa náði af honum tali. Þau segja að auk þess sem landsmenn ferðist einfaldlega meira en aðrir þá gerist hlutirnir einnig hraðar.

„Við sjáum að fólk jafnvel stekkur út daginn eftir, bókar seint á kvöldi og er farið daginn eftir,“ segir Þórunn.

Fjölmargir möguleikar eru nú aðgengilegir á netinu þar sem bóka má og setja saman eigin ferð á vefsíðum á borð við Dohop, Expedia og Kiwi. Þórunn segir þó hinar hefðbundnu ferðaskrifstofur ekki finna sérstaklega fyrir þessari þróun.

„Við höfum bara fundið vöxt í þessari samkeppni og eflir okkur bara í að gera betur. Þannig að nei, við finnum ekki að það sé neitt að herja á okkur í þeim efnum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×