Íslenski boltinn

Pepsimörkin: „Góðu liðin fá dómarann með sér“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Íraninn Shahab Zahedi Tabar var í sviðsljósinu í leik Fylkis og ÍBV í fjórðu umferð Pepsi deildar karla. Hann var tekinn til umræðu í Pepsimörkunum um helgina.

Skoðað var atvik þar sem Shahab virðist nota hendina til þess að blaka boltanum áfram inn fyrir varnarlínu Fylkis en svo braut Ari Leifsson á honum. Dómari leiksins Helgi Mikael Jónasson, dæmdi ekki neitt.

„Ef hann notar öxlina þá átti að dæma á það, en ég vildi sjá Helga bara svara þessu,“ sagði Gunnar Jarl Jónsson, einn sérfræðinga Pepsimarkanna, en Helgi Sigurðsson, þjálfari Fylkis, var í settinu hjá Pepsimörkunum.

„Þetta gerist beint fyrir framan mig. Hann braut á honum, jú vissulega gerði hann það, en hinn náttúrulega tekur boltann inn fyrir með hendinni og þá á að dæma það. En er ekki yfirleitt talað um það að góðu liðin fái dómarann með sér?“ sagði Helgi kokhraustur og uppskar mikil hlátrasköll frá sérfræðingunum.

Stjórnandi þáttarins, Hörður Magnússon, benti á að Shahab hafi ákveðið orð á sér sem hafi áhrif á dómara leiksins og aðra.

„Ég er ósammála Helga varðandi það að þó hann hafi tekið hann inn með hendinni þá réttlætir það ekki að dæma ekki brot og rautt spjald þegar hann sleppur inn fyrir,“ sagði sérfræðingurinn Freyr Alexandersson.

„Auðvitað var fyrst hendi en það var ekki dæmt á það. Ef þeir sáu brotið þegar hann er kominn inn fyrir sem allir sáu, þá er það bara brot og rautt.“

Alla umræðuna má sjá í sjónvarpsglugganum hér í fréttinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×