Íslenski boltinn

Pepsimörkin: Ólöglegt mark Fylkis fékk að standa

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Fylkismenn gátu þakkað lukkudísunum fyrir að fá fyrsta mark sitt gegn ÍBV dæmt löglegt þegar liðin mættust í fjórðu umferð Pepsi deildar karla, en endursýningar sýna að Ragnar Bragi Sveinsson er rangstæður í uppbyggingu marksins.

Sérfræðingar Pepsimarkanna fóru yfir atvikið og var Gunnar Jarl Jónsson, fyrrum dómari, einn af sérfræðingum þáttarins um helgina.

„Það sem gerist er að hann [aðstoðardómarinn] stoppar á næst aftasta varnarmanni. Í þessum tilfellum þarf hann að fylgja alveg niður að Derby, þá væri hann í betri stöðu,“ sagði Gunnar Jarl.

„Hann er væntanlega farinn að skoða hvort boltinn hafi farið í höndina á Glenn og missir í rauninni af næsta augnabliki þar sem Ragnar Bragi er klárlega rangstæður.“

Þeir skoðuðu einnig annað atvik þar sem Ragnar Bragi var dæmdur rangstæður en í þetta skiptið hefði ekki átt að dæma því hann kom aldrei við boltann þrátt fyrir að vissulega vera fyrir innan varnarmenn ÍBV.

„Þarna áttu bara að halda þungu flaggi. Ragnar Bragi lætur hann fara, sáum svipað gerast í fyrra á Valsvellinum sem var frábær ákvörðun,“ sagði Gunnar Jarl Jónsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×