Enski boltinn

Birkir og félagar berjast um 24 milljarða á morgun

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Birkir Bjarnason getur orðið úrvalsdeildarleikmaður á morgun.
Birkir Bjarnason getur orðið úrvalsdeildarleikmaður á morgun. vísir/getty
Það ræðst á morgun hvort það verða Birkir Bjarnason og félagar í Aston Villa eða Fulham sem fer upp í ensku úrvalsdeildina með Úlfunum og Cardiff en þá fer fram úrslitaleikur umspilsins á Wembley.

Villa og Fulham eru félög sem þekkja það vel að vera á meðal þeirra bestu en Villa var eitt þeirra liða sem hafði aldrei fallið þegar að það fór niður vorið 2016.

Fulham var búið að vera á meðal þeirra bestu í þrettán ár samfleytt þegar að það féll vorið 2013 en nú eru þau bæði 90 mínútum frá því að komast aftur í gullpottinn sem er enska úrvalsdeildin.

Sigurlaunin eru svakaleg en endurskoðendafyrirtækið Deloitte reiknast til að sigurliðið á morgun fái um 170 milljónir punda (24 milljarðar króna) í sinn hlut næstu þrjár leiktíðir og það miðast við að liðið sem fer upp falli aftur næsta vor.

Sigurliðið fær að minnsta kosti 95 milljónir punda fyrir það eitt að vera í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð og fallhlífargreiðsla svokölluð ef liðið fellur nemur 75 milljónum punda.

Ef liðið sem vinnur á Wembley á morgun heldur sér uppi að minnsta kosti eina leiktíð verður gullpotturinn kominn í 280 milljónir punda eða tæpa 40 milljarða króna.

Leikurinn verður í beinni á Stöð 2 Sport HD og hefst útsendingin klukkan 15.55.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×