Erlent

Sendiherra Ísraels kvartar undan "ósmekklegu gríni“ á kostnað Nettu

Birgir Olgeirsson skrifar
Netta vann Eurovision í ár með laginu Toy.
Netta vann Eurovision í ár með laginu Toy. Vísir/Getty
Sendiráð Ísraels í Hollandi hefur sent hollenskri sjónvarpsstöð kvörtun vegna gríns á kostnað ísraelsku tónlistarkonunnar Nettu Barzilai sem vann Eurovision-keppnina fyrr í mánuðinum.

Greint er frá málinu á vef Jerusalem Post en þar segir að sendiherra Ísraels gagnvart Hollandi, Aviv Shir-On, hafi sagt í bréfi sínu til sjónvarpsstöðvarinnar að frelsi til skoðana og gríns væri mikilvægt, en þetta skop hafi gengið of langt.

Atriðið sem um ræðir var sýnt síðastliðið sunnudagskvöld en þar mátti sjá leikara í gervi Nettu syngja lag hennar Toy en með texta sem sumir vilja meina að sé fjandsamlegur gyðingum.

„Sjáið hversu falleg ég er. Ég varpa sprengjum, Ísrael vinnur aftur, 70 ár og partíið heldur áfram,“ segir í texta skrumskælingarinnar sem leikarinn flutti en bakvið hann voru myndir af Gaza-svæðinu og ísraelskum öryggisvörðum.

„Engin leið, engir Palestínumenn inn. Ég elti Palestínumenn uppi bak við tjöldin,“ söng leikarinn.

Þetta grínatriðið var hluti af þætti grínistans Sanne Wallis de Vrier sem hollenska sjónvarpsstöðin BNNVARA sýnir.

Sendiherra Ísraels gagnvart Hollandi sagði þetta grín ekki bara dæmi um slæman smekk.

„Við fögnum því ekki þegar Palestínumenn eru drepnir. Þegar fólk týnir lífi, skiptir það ekki máli hvaðan það er, við hlæjum ekki. Þið ættuð heldur ekki að hlæja,“ skrifaði sendiherrann.

Forsvarsmenn sjónvarpsstöðvarinnar BNNVARA sögðu í svari sínu að þátturinn fjalli um málefni líðandi stundar með háði og að Ísrael hefði nýverið unnið Eurovision í skugga mikilla átaka á Gaza-svæðinu.

Stöðin hafnaði öllum ásökunum um að skopið hefði verið fjandsamlegt gyðingum. Er það álit forsvarsmanna stöðvarinnar að gert hafi verið grín að stefnu Ísraels og ekki væri um áfellisdóm að ræða gagnvart samfélagi gyðinga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×