Innlent

Leiðin­legustu kosningar í manna minnum

Jakob Bjarnar skrifar
Álitsgjafar Vísis hafa fylgst lengi með kosningum og þau muna bara ekki önnur eins leiðindi.
Álitsgjafar Vísis hafa fylgst lengi með kosningum og þau muna bara ekki önnur eins leiðindi.
„Ég hef aldrei upplifað jafn óáhugaverðar kosningar um ævina,“ segir Kristján Hjálmarsson fyrrverandi fréttastjóri Fréttablaðsins og Vísis.

Man ekki eftir eins óáhugaverðum kosningum

Það er nefnilega það. Þetta er nefnilega nákvæmlega sú tilfinning sem blaðamaður Vísis hefur fyrir kosningunum á morgun þannig að hann ákvað að kanna hvort þessi doði gagnvart sveitarstjórnarkosningunum komandi væri ef til vill eitthvað sem mætti rekja til persónulegra vandamála, einhverrar miðaldrakrísu eða sút vegna leiðinlegs veðurfars, en eftir samtal við félaga úr blaðamannastétt, sem fylgjast vel með og hafa gert lengi, þá er þetta almennt viðkvæðið. Og reyndar kveður víða við þann tón á samfélagsmiðlum.

Ég hef fylgst með stjórnmálum alla ævi, alinn upp við hafnfirska bæjarpólitík og sem fyrrverandi oddviti Tónlistans tala ég af reynslu þegar ég segi að þetta hafi aldrei verið eins óáhugaverðar kosningar,

heldur Kristján áfram.

Aðalheiður Ámundadóttir er blaðamaður á Fréttablaðinu. Hún er sem stendur stödd fyrir norðan í persónulegum erindagjörðum. Hún á lögheimili í Reykjavík og kaus því utankjörstaða, hjá sýslumanninum á Húsavík og sendi Vísi meðfylgjandi mynd sem er lýsandi, „þetta eru mín tíu cent“:

Kraðak bókstafa í kjörklefanum leiddu Aðalheiði til þess að fara að skrambla og orðin sem upp komu reyndust lýsandi.aðalheiður
„Leiðinlegasta kosningabarátta sem ég hef upplifað held ég,“ segir Aðalheiður.

Sveitarstjórnarstigið í kreppu

En, af hverju er þetta svona aumt? Aðalheiður lætur sér detta það í hug að borgin sé ekki í nógu miklum lamasessi. „Það átti að gera umferðamal að issjúi en svo kom í ljós að það er ekkert að umferðinni.“

Aðalheiður telur einsýnt að þeir sem eru í framboði í sveitarstjórnarkosningunum vilji margir vera í öðrum veruleika en þeir eru.
Aðalheiður segir að fjölmiðlar ráði illa við að varpa skýru ljósi á allan þann fjölda flokka sem er í framboði og sveitarstjórnarmálin séu einfaldlega leiðinlegri en landsmálin.

Hver nennir að tala um leikskóla og húsnæðisvanda?

En, er þetta sveitarstjórnarstig ekki bara í kreppu? Vill vera eitthvað sem það er ekki?

„Jú, mögulega. Eða, sko, þeir sem eru í framboði vilja margir vera í öðrum raunveruleika en þeir eru. Þegar femínistar hafa ekki upp á annað að bjóða en „örugg strætóskýli“ þá vita þær sjálfar að þær eru í ruglinu.“

Eins og finnsk kvikmynd

Karen Kjartansdóttir fyrrverandi blaðamaður er á svipuðum nótum þegar Vísir heyrði í henni hljóðið:

Mín upplifun hefur verið svolítið eins og þegar maður horfir á finnska kvikmynd og veit ekki alveg hvort hún á að vera fyndin eða sorgleg,

segir Karen. Og telur að líkast til eigi hún að vera bæði.

„En innihaldið næst ekki vel í gegn því framsetningin er svo kaótísk. Sjálfstæðisflokkurinn hefur náttúrulega þá verið stjarna þessarar myndar. Maður veit ekki hvort Eyþór ætlar að fara byggja 8000 íbúðir á morgun af eldmóði og samvinnuhugsjón sem virðist hafa komið frá ísraelsku samyrkjubúi eða hvort þetta snúist um landfyllingu í Örfirisey eða eitthvað allt annað.“



Vg í klemmu vegna stjórnarsamstarfsins

Karen segir að á sama tíma hafi hún ekki verið að falla í stafi yfir frammistöðu annarra. „Ég hef nánast ekkert orðið vör við Vg í kosningabaráttunni.“

Vg virðist vera í klemmu vegna stjórnarsamstarfsins?

„Mikilli og kannski er sú ástæða þess að þau virðast ekki ná að forma skilaboð sín með trúverðugum hætti. Eiginlega veltir maður því fyrir sér hvers vegna allt þetta fólk þarf svona marga flokka því áherslur þeirra virðast nær sömu.“

Karen segir kosningabaráttuna kakófóníu og fáir ef nokkrir nái að marka sér sérstöðu eða nái máli.
Ef reynt er að horfa út fyrir borgina þá er Kópavogur næsti bær.

Skringilegheit Miðflokksins

„Ármann Kr. náði að fanga athygli manns með óvæntri og súrelískri auglýsingu og ævintýralegum launahækkunum á skömmum tíma,“ segir Karen. „Og það má Miðflokkurinn eiga að hlutdeild hans er strax mikil og ótrúlegt að sjá hvað þeir ná að bjóða fram í mörgum sveitarfélögum með frambærilegu fólki.“

Siggi Stormur og Vigdís Hauks?

„Vigdís er náfrænka mannsins míns þannig ég ræði hana hana ekki á öðrum forsendum en þeim að hún sé snillingur í að beina sviðsljósinu að sjálfri sér,“ segir Karen og gefur ekki tommu eftir með það.

„Já, Vigdís Hauks stendur náttúrlega upp úr í skringilegheitum með víkinga tvo í bakgrunni,“ segir Kristján.

Miðflokkurinn bjargar því sem bjargað verður?

„Nei, ég segi það nú ekki. Síður en svo því það veit enginn hver skilaboð myndbandanna eru.“



Glefsur og ljósir punktar

Þar fór það. Karen gerir úrslitatilraun til að finna til ljósa punkta:

„Og fyrir almenning sem nennir ekkert að hlusta á pólitík, rök um það hvort eitthvað heyri undir ríki eða sveitarfélög og svo framvegis virðist Vigdís, með vaska sveit víkinga, hljóma sem rödd skynseminnar. Stjórnmálamaður sem talar ekki eins og Dagur B. heldur tja, hvað skal segja? Það er hins vegar gaman að sjá Samfylkingarfólk tala af sjálfsöryggi á ný eftir að hafa lamið á sér og samherjum sínum um langa hríð.“

Þegar reynt er að taka til einhverjar vörður, eitthvað sem vekur athygli þá telur Karen það vera til að mynda þetta að Sjálfstæðisflokkurinn tefli fram Hildi Björnsdóttur í borginni, sem virðist vera framtíðarmanneskja í forystu flokksins. Karen telur ennfremur að Viðreisn virðist vera að finna sér rödd og sérstöðu.

„Þau tefldu fram tiltölulega óþekktu fólki en hafa birt, að manni sýnist vel ígrunduð gögn og öfgalausar hugmyndir. Þessi sérframboð hef ég bara skoðað mér til skemmtunar og Sósíalistarnir voru mun flottari en ég hefði getað ímyndað mér þegar þau fóru fyrst af stað. Sanna er heillandi, öðruvísi og áhugaverður leiðtogi. En, Píratar virðast orðið talsvert establishment. Ekki mikið pönk lengur í kringum þau eða uppreisnarhugur heldur já, í takt við Samfylkinguna í borginni. Merkileg rólegheit í kringum þau.“

Kakófónía og kraðak

En, það er sama hvað reynt er að kreista út úr kosningabaráttunni sem kenna má við, meðal álitsgjafa Vísis þá fellur þetta flatt. Máist út í kraðak. Kakófóníu. „Það voru svo margar raddir og svipaðar að erfitt var að greina einhvern þráð,“ segir Karen.

Kristján telur stjórnmálin almennt í djúpstæðri kreppu og hann spáir því að met verði slegin, í lélegri kosningaþátttöku.
Kristján telur flokkana vera sér vel meðvitaða um þetta og hafi því keyrt hart á netmiðlum. „En, með hræðilega leiðinlegum myndböndum.“

Þannig að flokkunum hefur gersamlega mistekist að marka sér sérstöðu í þessu kraðaki sem er?

„Já, algjörlega - myndböndin eru öll með svipuðum hætti nema þeir sem reyna að fara út fyrir kassann en það verður allt svo kjánalegt að skilaboðin komast aldrei til skila,“ segir Kristján.

Turnarnir tveir ef turna skyldi kalla

Athyglin beinist enn aftur að Reykjavíkurborg. Hvað má um baráttu turnanna tveggja segja, þeirra Eyþórs og Dags?

„Já, ef turna skyldi kalla,“ segir Kristján. „Þetta er svo óspennandi að það hálfa væri nóg. Það hefur að vísu verið heldur spaugilegt að fylgjast með örvæntingunni sem hefur gripið um sig meðal Sjálfstæðismanna því nær sem dregur kjördegi.“

Álitsgjafar Vísis spá því að kosningaþátttaka verði í sögulegu lágmarki.visir/stefán
Kristján nefnir andúð Sjálfstæðismanna á borgarlínunni sem dæmi:

„Sem verður alltaf meiri og meiri, er svo hjákátleg þar sem allar sveitastjórnir á höfuðborgarsvæðinu eru hlynntar henni þvert á flokka en samt reyna þau að marka sér sérstöðu með þessu - sérstöðu sem enginn kaupir. Dagur virðist svo bara þarna einhvern veginn af gömlum vana.“

Álitsgjafar Vísis telja það beinlínis sorglegt að þrátt fyrir öll þessi framboð, sem enginn hefur tölu á, ná þau ekki að vekja neinn áhuga á kosningum.

Ég óttast að kjörsókn verði í sögulegu lágmarki. Og það verður ekki við veður, úrslitaleik Meistaradeildarinnar eða allar útskriftarveislurnar að sakast,“

segir Kristján. Hann segir að stjórnmálin sjálf hafi séð um að ýta kjósendunum frá sér.



Stjórnmál í djúpstæðri kreppu

Er þetta sveitarstjórnarstig sem slíkt kannski í einhvers konar tilvistarkreppu?

„Ekki bara sveitastjórnarstigið heldur bara stjórnmálin almennt. Áhuginn og kosningaþátttaka hefur farið hratt dvínandi síðustu ár og stjórnmálamenn hafa ekki hjálpað til við að viðhalda áhuganum,“ segir Kristján og rýnir nánar í stöðuna.

Turnarnir tveir, ef turna skyldi kalla.Samsett
„Samfélagsgerðin hefur breyst gríðarlega á síðustu árum - nú býr fólk alls staðar að úr heiminum á Íslandi og við höfum ekki verið nógu dugleg að upplýsa þau um réttindi þeirra til að kjósa. Sums staðar á landinu eru erlendir ríkisborgarar jafnvel hátt í 25 prósent af íbúum. Og það sem við gerum erum að hvetja þá til að kjósa nokkrum dögum fyrir kosningar. Það er því miður ekki mikið meira en það. Og það segir sig sjálft að kosningaþátttaka minnkar þá í kjölfarið.“

Karen tekur í sama streng.

Fyrir flesta skiptir þetta á endanum sum að halda sorphirðu í borginni í skikkanlegu horfi,

segir Karen. „Og öðru praktísku eins og að koma börnunum sínum í skóla og sjálfu sér í vinnu. Og, jú, geta keypt sér hús, sem er stórmál. Um það eru allir sammála og greinilega mjög erfitt fyrir flokka að marka sér sérstöðu í þessu á jafn skömmum tíma og í jafn áhugalausu umhverfi sem bara getur ómögulega innbyrt upplýsingar um alla þessa flokka.“



Ekkert fjas um flugvöllinn

Kosningaþátttaka verður léleg segir Karen. En, ef við lítum til þess að upplýst afstaða sé frumforsenda lýðræðis sem virkar til góðs; er þá góð kosningaþátttaka eftirsóknarverð?Þá að því gefnu að það sé eftirsóknarvert að það sé vit í þessu?

„Já, ég hef aldrei skilið hvers vegna fólk á að kjósa bara til að kjósa. Mér þykir þetta ábyrgðarhluti. Hef lagt mig fram um að virða skoðanir fólks og ólík sjónarmið en ef það hefur enga skoðun skil ég ekki hvers vegna það ætti að viðra hana með handhófskenndu x-i. Það er líka mjög áhugavert hversu fáir eru til í að gefa upp skoðanir sínar í könnunum nú orðið sem gerir allar spár mjög erfiðar eins og við höfum séð hér heima og víðar um heim. Og, jú dreifing á fylgi flokka eftir hverfisskipan er áhugaverður þáttur. En, gleðitíðindin voru held ég að nær ekkert hefur verið talað um flugvöllinn sem er líklega þreyttasta sveitarstjórnarmál síðari tíma.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×